Lögreglan í Ferguson skaut mann

Ungur maður er lífshættulega slasaður eftir að lögregluþjónn skaut hann í átökum í borginni Ferguson í Missouri í Bandaríkjunum í nótt. Til átakanna kom í kjölfar fjöldagöngu sem var farin til minningar um hinn átján ára Michael Brown, sem féll fyrir hendi lögregluþjóns í Ferguson fyrir einu ári.

Lögreglan í borginni segir að maðurinn hafi skotið í átt að lögreglumönnum og látið öllum illum látum. Hann hafi verið vopnaður byssu sem hann hafi stolið.

Á myndum sem teknar voru á vettvangi má sjá ungan, svartan mann liggjandi í blóði sínu á götunni. Nafn eða aldur mannsins hefur ekki verið gefið upp, enn sem komið er, en óstaðfestar fregnir herma að hann hafi verið góður vinur Browns.

Alda mótmæla og óeirða spratt upp í kjölfar þess að hvítur lögregluþjónn skaut Brown til bana þann 9. ágúst árið 2014. Málið í nótt er eitt fjölmargra sem hafa komið upp í landinu undanfarið þar sem hvít­ir lög­regluþjón­ar skjóta blökku­menn og hafa vakið mikla reiði vestanhafs, sem og víðar.

Fjöldagangan í gær fór friðsamlega fram. Það var ekki fyrr en í gærkvöldi sem hópur manna dró sig úr göngunni og fóru að hleypa af skotum. Til skotbardaga kom á milli hópsins og lögregluþjóna og varð einn maður fyrir byssuskoti lögregluþjóns.

Hann liggur nú á sjúkrahúsi, þungt haldinn, að því er segir í frétt breska ríkisútvarpsins.

Fyrr á árinu birti bandaríska dómsmálaráðuneytið harðorða skýrslu um lögregluna í Ferguson. Þar er meðal annars bent á að 93% þeirra sem handteknir voru í borginni á þriggja ára tímabili voru svartir en hlutfall þeirra af íbúafjölda borgarinnar er mun lægra eða um 67%.

Það er sömuleiðis meira en tvisvar sinnum líklegra að lögreglan leiti á svörtum bílstjórum heldur en hvítum þegar bílar þeirra eru stöðvaðir, þó það komi síðan í ljós að hvítu bílstjórarnir hafi oftar þýfi eða ólöglegan varning í fórum sínum. Í níu skiptum af hverjum tíu sem lögreglan beitti valdi voru það svartir sem þurftu að þola valdbeitingu lögreglumanna. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert