Að minnsta kosti einn var fluttur á spítala eftir að til átaka kom í kjölfar mótmælagöngu í borginni Ferguson í Bandaríkjunum seint í gærkvöldi. Var meðal annars hleypt af byssum, samkvæmt heimildum AFP.
Gengið var til minningar um hinn átján ára gamla Michael Brown sem var skotinn til bana í borginni fyrir ári síðan. Málið er eitt fjölmargra sem hafa komið upp undanfarið þar sem hvítir lögregluþjónar skjóta blökkumenn og hafa vakið mikla reiði vestanhafs. Alda mótmæla og óeirða hefur sprottið upp í kjölfarið.
Sjálf mótmælagangan fór friðsamlega fram í gær en í kjölfar hennar æstust leikar. Hópur mótmælenda rændi verslun og hóf átök gegn óeirðasveit lögreglunnar í bænum.