Lögreglan í Västerås hélt í kvöld blaðamannafund vegna morðanna sem áttu sér stað í IKEA-verslun í bænum í dag. Það kemur fram að maður sem var fluttur slasaður á spítala hefur nú einnig verið handtekinn, grunaður um aðild að morðunum. Þetta kemur fram á vef Expressen.
Fljótlega eftir morðin var maður handtekinn á strætóstoppistöð fyrir utan verslunina. Sá maður er fæddur árið 1992. í fjölmiðlum kom fljótlega fram að einn maður hafði verið fluttur slasaður á spítala og nú hefur lögreglan staðfest að hann hafi einnig verið handtekinn, grunaður um aðild að morðunum. Sá maður er fæddur árið 1979.
Ekki liggur fyrir hvers vegna annar hinna grunuðu árásarmanna fékk sjálfur áverka. Lögreglan telur ekkert benda til þess að hinir látnu hafi með einhverjum hætti veitt árásarmanninum áverka. Út frá þessum ummælum mætti álykta að grunur leikur á að annar árásarmannanna hafi veitt hinum áverkana.
Sjá frétt mbl.is: Hnífstunga í IKEA-verslun
Lögreglan vinnur nú að rannsókn málsins en ekkert liggur fyrir um málsatvik, eða ástæður morðanna.
Talið er að hinir handteknu menn þekkist, og að hinir látnu hafi einnig þekkst. Engin tenging sé þó á milli árásarmannanna og hinna látnu.
Alls hafa verið um 100 lögreglumenn að störfum á svæðinu í dag og verður sett upp tímabundin aðstaða fyrir utan verslunina þar sem lögreglumenn verða næstu daga að svara fyrirspurnum og ræða við vitni sem kunna að stíga fram með upplýsingar um málið.
Á blaðamannafundinum vildi lögreglan ekkert gefa upp um það sem komið hefur fram í yfirheyrslunum.
Lögreglan safnaði saman öllum lyklum að verslunum í verslunarkjarnanum þar sem árásin átti sér stað. Var það gert meðal annars til að ganga úr skugga um að ekki séu fleiri aðilar að málinu ennþá inni í byggingunni en samkvæmt vitnum er talið líklegast að hinir tveir handteknu hafi verið einu árásarmennirnir.
Sjá frétt mbl.is: „Verslunin er handan við hornið“