23 manns handteknir í Ferguson

Lögreglan í Ferguson í Bandaríkjunum hefur handtekið yfir tuttugu manns vegna óeirða sem hafa geisað í borginni undanfarna daga. Neyðarástandi var lýst yfir í borginni í gærkvöldi og var óeirðasveit lögreglunnar kölluð á vettvang.

Þess var minnst á sunnudaginn að eitt ár er frá því að blökkumaðurinn Michael Brown féll fyrir hendi lögregluþjóns í borginni.

Talsmaður lögreglunnar segir að 23 manns séu í haldi hennar. Engum skotum hafi verið hleypt af í nótt og ekkert táragas notað.

Hinn átján ára Tyrone Harris er alvarlega særður eftir að hann varð fyrir byssuskoti lögregluþjóns í átökum á sunnudaginn. Lögreglan segir að Harris hafi verið vopnaður og hafi sjálfur skotið í átt að lögregluþjónum til að byrja með. Faðir hans segir það hins vegar „haugalygi.“

Saksóknari hefur gefið út tíu ákærur á hendur Harris, þar á meðal fyrir að ráðast á lögregluþjón.

Fjöldagangan á sunnudaginn fór friðsamlega fram, en til skotbardaga kom á milli hóps mótmælenda og lögregluþjóna síðar um kvöldið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert