Annar þeirra sem grunaðir eru um að hafa staðið að árásinni í IKEA-versluninni í Vasteras í Svíþjóð, hefur neitað sök en hinn liggur þungt haldinn á sjúkrahúsi. AFP hefur komist yfir dómskjöl sem sýna að sá sem er í haldi lögreglu er hælisleitandi og bjó í miðstöð fyrir hælisleitendur í bænum Arboga.
Tveir létust í árásinni; 55 ára kona og 28 ára sonur hennar.
Sá árásarmannanna sem liggur á sjúkrahúsi hefur gengist undir aðgerð þar sem gert var að stungusárum. Hann hefur ekki verið yfirheyrður af lögreglu. Hann er fæddur 1979 og samkvæmt Aftonbladet bjó hann í sömu miðstöð og meintur samverkamaður sinn.
Lögregla hefur ekki viljað gefa upp frekari upplýsingar um grunuðu né mæðginin sem létust en fjölmiðlar herma að konan og sonur hennar séu frá norðurhluta Svíþjóðar og hafi verið í heimsókn hjá skyldmennum í Vasteras.
Dagblaðið VLT segir að ráðist hafi verið á þau í eldhúsdeild IKEA og hefur eftir lögreglu að vopnin sem notuð voru hafi verið gripin úr hillum verslunarinnar. Ekki liggur fyrir hvað árásarmönnunum gekk til.
Frétt mbl.is: Mæðgin myrt í Svíþjóð