Eru brotin úr BUK-flugskeyti?

Maður kemur kerti fyrir við hollenska sendiráðið í Moskvu 17. …
Maður kemur kerti fyrir við hollenska sendiráðið í Moskvu 17. júlí sl. til að marka að ár er liðið frá því að vélin í flugi MH17 var skotin niður. AFP

Sérfræðingar sem rannsaka örlög farþegaþotunnar í flugi MH17 sem var grandað í austurhluta Úkraínu segjast hafa fundið brot sem tilheyra mögulega rússnesku BUK-flugskeyti.

Þetta kemur fram í sameiginlegri yfirlýsingu saksóknara og hollensku samgönguöryggsstofnunarinnar. Talsmaður hollenska ákæruvaldsins sagði í samtali við AFP að hann gæti ekki tilgreint nákvæmlega hvar brotin hefðu fundist, en það hefði verið í austurhluta Úkraínu.

Farþegaþotan var skotin niður 17. júlí á síðasta ári, þegar harðir bardagar stóðu  yfir milli úkraínskra hersveita og aðskilnaðarsinna. Allir innanborðs, 298 samtals, létu lífið. Vélin var á leið frá Amsterdam til Kuala Lumpur. Tveir þriðjuhlutar farþega voru Hollendingar og meðal þeirra voru mörg börn.

Stjórnvöld í Úkraínu og aðrir hafa sakað aðskilnaðarsinna um að hafa grandað vélinni og notað til þess BUK-flugskeytakerfi frá Rússum. Uppreisnarmennirnir og yfirvöld í Rússlandi neita ásökununum og hafa vísað þeim til föðurhúsanna.

Teymið sem fer með rannsókn málsins samanstendur af aðilum frá Hollandi, Úkraínu, Ástralíu, Malasíu og Belgíu. Fulltrúar fleiri ríkja eru nú staddir í Haag til að ræða drög að skýrslu um atburðinn.

Rannsakendur hafa varað við því að ályktanir séu dregnar af brotunum sem eru til athugunar og segja enn of snemmt að fullyrða að þau tengist örlögum vélarinnar í flugi MH17.

Samhygðarveggur skreyttur mjúkdýrum sem m.a. voru lögð við Schiphol-flugvöll í …
Samhygðarveggur skreyttur mjúkdýrum sem m.a. voru lögð við Schiphol-flugvöll í kjölfar þess að fréttir bárust af því að vélinni hefði verið grandað. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert