Mæðgin myrt í Svíþjóð

AFP

Fórnarlömbin í hnífaárásinni í IKEA-verslun í bænum Västerås í Svíþjóð í gær voru mæðgin, 55 ára kona og 28 ára sonur hennar. Tveir karlmenn eru í haldi lögreglu, grunaðir um að hafa framið verknaðinn. Annar er 23 ára en hinn 35.

Sá eldri er lífshættulega særður eftir að hafa orðið fyrir hnífstungu.

Lögreglan í bænum hefur hingað til aðeins viljað staðfesta að fórnarlömbin tengdust, en það var staðarblaðið VLT sem greindi frá því í gærkvöldi hver tengslin væru. Lögreglan hefur einnig staðfest að árásarmennirnir tveir þekkist.

Ekki hefur hins vegar verið upplýst hvort árásarmennirnir hafi þekkt fórnarlömbin tvö.

Rannsókn málsins heldur áfram en lögreglan skoðar nú meðal annars upptökur úr öryggismyndavélum í versluninni. Verslunin verður áfram lokuð í dag.

Mæðginin voru í sumarfríi í Västerås. Þau bjuggu annars staðar á landinu en höfðu þó tengsl við bæinn, að sögn lögreglu. Þau voru að versla í Ikea þegar ráðist var á þau.

Lögreglan telur að tilviljun hafi ráðið því að ráðist var á þau.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert