Lýst hefur verið yfir neyðarástandi í borginni Ferguson í Missouri í Bandaríkjunum. Spennan hefur aukist í borginni frá því á sunnudag, þegar þess var minnst að eitt ár er liðið frá því að ungur blökkumaður, Michael Brown, féll fyrir hendi lögregluþjóns.
Til snarpra átaka kom á milli hóps mótmælenda og lögreglunnar og varð einn ungur maður fyrir byssuskoti lögregluþjóns. Maðurinn, hinn átján ára gamli Tyrone Harris, var fluttur á sjúkrahús lífshættulega slasaður. Hann var í gær ákærður fyrir árás á lögregluþjóna, en lögreglan sakar hann um að hafa skotið að sér fyrst.
Jay Nixon, ríkisstjóri Missouri, biðlar til mótmælenda að halda mótmælunum friðsömum.
Talsverð átök voru í Ferguson í nótt og voru meðal annars nokkrir óeirðaseggir handteknir. Kastað var grjóti og vatnsflöskum í átt að lögregluþjónum. Í gær voru um fimmtíu mótmælendur handteknir við dómshúsið í borginni.