Reyndi sjálfsvíg eftir árásina

Frá verslun IKEA í Västeras þar sem árásin átti sér …
Frá verslun IKEA í Västeras þar sem árásin átti sér stað. AFP

Myndbandsupptökur úr öryggiskerfi IKEA verslunarinnar í Svíþjóð þar sem mæðgin voru myrt á mánudaginn sýna að hinn grunaði reyndi að fremja sjálfsvíg eftir að hafa stungið mæðginin. Upptökurnar virðast sýna að það var hinn særði sem var árásamaðurinn, en annar maður var handtekinn á nærliggjandi strætóstöð eftir morðin.

Mennirnir tveir eru báðir hælisleitendur frá Erítreu og átti að vísa öðrum þeirra úr landi. Upptökurnar sýna eldri manninn, sem er 30 ára, grípa tvo hnífa úr hillum verslunarinnar og ráðast nokkrum sekúndum seinna á 55 ára konu og 28 ára son hennar sem voru viðskiptavinir verslunarinnar. Árásin endaði svo með því að maðurinn stakk sjálfan sig í magann.

Hinn maðurinn sem var handtekinn er 23 ára, en hann hefur neitað aðild að árásinni. Ekki hefur enn verið hægt að yfirheyra þann sem stakk sig í magann, en hann er nú á sjúkrahúsi.

Um 18 þúsund Erítreubúar eru í Svíþjóð, en búist er við að fjöldi þeirra aukist talsvert á komandi árum. Á síðasta ári sóttu 11.500 einstaklingar frá Erítreu um hæli í Svíþjóð og á fyrstu sjö mánuðum þessa árs hafa 4.200 sótt um hæli. Það gerir Erítreubúa að næststærsta flóttamannahóp í Svíþjóð á eftir Sýrlendingum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert