Allt í rúst í Tianjin

Óttast er að mun fleiri hafi látist í sprengingunum í hafnarborginni Tianjin en alls hafa 44 fundist látnir og yfir 500 eru slasaðir. Þar af eru tugir í lífshættu. Landslagið allt í kringum vöruhúsið þar sem sprengingarnar urðu er gjörbreytt, ekkert nema eyðilegging.

„Ég hélt að þetta væri jarðskjálfti þegar ég fann fyrir sprengingunni,“ segir Zhang Zhaobo, íbúi í borginni. „Ég hljóp til föður míns og ég sá að himininn var rauður, allt gler var brotið og ég var skelfingu lostinn,“ bætir hann við.

Að sögn fréttamanns AFP í Tianjin brotnuðu rúður í byggingum í allt að þriggja kílómetra fjarlægð frá vöruhúsinu við hafnarsvæðið. Byggingar í nágrenninu eru rústir einar og bílflök á víð og dreif. Enn loga eldar víða á svæðinu en meðal þeirra sem létust eru 12 slökkviliðsmenn. Á annað þúsund slökkviliðsmenn eru við störf á hafnarsvæðinu.

Þar sem öll sjúkrahús eru yfirfull eru læknar og aðrir sjúkraliðar að störfum á götum úti. Þar sem rúður spungu í gríðarlega mörgum húsum skárust mjög margir þegar glerbrot þeyttust inn í íbúðir og fyrirtæki.

Samkvæmt frétt XInhua eru yfir 520 slasaðir á sjúkrahúsum borgarinnar, þar af 52 mjög alvarlega slasaðir. Að minnsta kosti 21 er saknað.

Mei Xiaoya, 10 ára og móðir hennar reyndu að fá læknisaðstoð á sjúkrahúsi en var vísað frá vegna fjöldans sem þangað hafði leitað.

„Ég er ekkert hrædd, þetta er bara rispa,“ segir hún við fréttamann AFP og bendir á umbúðir á handlegg sínum. „En mamma er alvarlega slösuð. Hún getur ekki opnað augun.“

Reykjarmökkur liggur enn yfir borginni hálfum sólarhring eftir að fyrsta sprengingin skók borgina.

„Auðvitað er ég hræddur. Hvernig er hægt að vera óhræddur?“segir einn þeirra sem fréttamaður AFP ræddi við. „Ég hljóp, greip barnið mitt og eiginkonu og hljóp.“

Ekki er vitað nákvæmlega hvað olli sprengingunni en Xinhua segir að í vöruhúsinu séu geymdir gámar með hættulegum efnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert