Flokkurinn þurrkist út sigri Corbyn

Tony Blair, fv. forsætisráðherra Bretlands og formaður Verkamannaflokksins.
Tony Blair, fv. forsætisráðherra Bretlands og formaður Verkamannaflokksins. Reuters

Hinn umdeildi fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands og formaður Verkamannaflokksins, Tony Blair, varar við því að flokkurinn hafi aldrei verið í eins mikilli hættu staddur í aldarlangri sögu sinni og að hann gæti hreinlega þurrkast út ef vinstrimaðurinn Jeremy Corbyn sigrar í formannskjöri hans eins og allt bendir til.

Skoðanakannanir hafa bent ótvírætt til þess að Corbyn muni fara með afgerandi sigur af hólmi í leiðtogakjöri flokksins sem hefst á morgun. Blair hvatti flokksmenn til þess að hafna Corbyn og stefnu hans í formannskjörinu í grein sem hann skrifaði í The Guardian.

„Það skiptir ekki máli hvort þú sért til vinstri, hægri eða á miðjunni í flokknum, hvort sem þú studdir mig eða hataðir. Þú verður að skilja hættuna sem við erum í. Flokkurinn gengur með lokuð augun og handleggina útrétta að bjargbrúninni að oddóttum klettunum fyrir neðan. Þetta er ekki tími til að stilla sig um að spilla friðsemd göngunnar vegna þess að það valdi „sundrung“. Þetta er tími fyrir rúbbítæklingu ef það væri mögulegt,“ skrifar Blair.

Áður hefur Blair sagt að Íhaldsflokkurinn vonist eftir sigri Corbyn og að flokksmenn Verkamannaflokksins ættu ekki að leita í skjól vinstristefnunnar. Fyrrverandi spunameistari Blair, Alastair Campell, sagði fyrr í þessari viku að meðlimir Verkamannaflokksins ættu að kjósa hvern sem er annan en Corbyn.

Ákall Blair er talið til marks um vaxandi óróa flokkseigendafélags Verkamannaflokksins vegna yfirvofandi sigurs Corbyn. Sumir þingmenn sem eru á móti kjöri hans hafa þó áhyggjur af því að viðvaranir Blair eigi eftir að virka þveröfugt vegna þess hversu umdeildur Blair er.

Atkvæðagreiðsla í formannskjörinu hefst á morgun og stendur til 10. september. Tilkynnt verður um úrslitin 12. september.

Frétt The Guardian af viðvörunum Tonys Blair um Jeremy Corbyn

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert