Gríska þingið samþykkti samninginn

Frá gríska þinginu í nótt
Frá gríska þinginu í nótt AFP

Meirihluti þingmanna á gríska þinginu samþykkti rétt í þessu skilyrði sem sett voru fyrir þriðja björgunarpakka alþjóðlegra lánastofnana. Umræður um samninginn stóðu yfir á þingi í alla nótt.

Forsætisráðherra Grikklands, Alexis Tsipras, hvatti þingheim til þess að samþykkja samkomulagið til þess að tryggja það að landið gæti bjargast og haldið baráttunni áfram. Skiptar skoðanir eru innan flokks Tsipras, Syriza, um ágæti samningsins.

Lánasamningurinn, sem er upp á 85 milljarða evra, felur meðal annars í sér skattahækkanir og niðurskurð í ríkisrekstri. Skilyrði samkomulagsins verða rædd á fundi fjármálaráðherra evruríkjanna síðar í dag.

Atkvæðagreiðsla hófst á þingi skömmu eftir klukkan 9:30 að staðartíma, klukkan 6:30 að íslenskum tíma, eða sex tímum eftir að lokaumræðan um samkomulagið hófst í þingsal, segir í frétt BBC.

Þann 20. ágúst nk. er komið að skuldadögum hjá gríska ríkinu sem þarf að endurgreiða Seðlabanka Evrópu um 3,2 milljarða evra af láni sem ríkið fékk hjá bankanum. Ef ekki hefði tekist að ná samkomulagi um samninginn á þingi er talið líklegt að Seðlabanki Evrópu hefði hætt að veita grískum bönkum neyðarfjármögnun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka