Fundu eldfimt efni við flóttamannamiðstöðina

AFP

Flóttamannamiðstöðin þar sem maðurinn bjó sem grunaður er um morðið í IKEA-versluninni í Västerås hefur verið rýmd og íbúarnir fluttir í aðrar miðstöðvar. Ástæðan er að pokar með grunsamlegu, eldfimu efni fundust við miðstöðina. Aftonbladet greinir frá þessu í dag. 

Lögreglan í Västerås fékk ábendingu í gærkvöldi um að eldfimt efni væri í nágrenni við miðstöðina og að sprengihætta stafaði af efninu. Efnið var í svörtum ruslapokum sem búið var að loka með silfurlituðu límbandi. Einn pokinn fannst um 50 metrum frá miðstöðinni og annar um 30 metrum frá hinum pokanum. 

Sprengisérfræðingar lögreglunnar voru að störfum í fleiri klukkustundir áður búið var að greina efnið.

„Við getum ekki útilokað að efninu hafi verið komið fyrir í þeim tilgangi að gera árás á miðstöðina en rannsóknin er enn á frumstigi og ekkert liggur fyrir í þeim efnum ennþá,“ segir Lisa Sannervik, talsmaður lögreglunnar í Västmanland

Mótmæli voru haldin fyrir utan miðstöðina á fimmtudaginn og hefur lögreglan því verið  með viðbúnað á staðnum undanfarna daga.

Eftir að efnið fannst í gærkvöldi er búið að loka af stóru svæði í kringum miðstöðina og íbúarnir fluttir í aðrar miðstöðvar í nágrannasveitarfélögum. Rýmingin átti sér stað nú í morgun. Starfsmaður sænsku útlendingastofnunarinnar segir rýminguna og atburðina undanfarna daga hafa verið afar dramatíska og ákveðið hefur verið að flóttamennirnir munu ekki snúa aftur í búðirnar í Västerås á næstu dögum. „Þeim hefur nú verið komið fyrir í nágrannasveitarfélögum og snúa ekki aftur á næstunni,“ segir Helena Cho Györki, talsmaður útlendingastofnunarinnar. 

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert