Fimm aðgerðasinnum á vegum hvalaverndunarsamtakanna Sea Shepherd hefur verið skipað að yfirgefa Færeyjar eftir að þeir reyndu að trufla hefðbundnar hvalveiðar eyjarskeggja, að sögn færeysku lögreglunnar.
Fjórum var vísað á brott í gær en sá fimmti heldur á brott í dag, sagði Christian Jonsson, talsmaður lögreglunnar, í samtali við AFP. Hann bætti við að þeim sé meinað að koma til landsins í eitt ár.
Færeyskur dómstóll fann í gær fimmmenninganna seka um að hafa truflað hefðbundið „grindardráp“ Færeyinga og brotið þannig færeysk lög um hvalveiðar.
Við veiðarnar eru hvalirnir gabbaðir inn í fjörð þar sem þeir eru drepnir með handafli, sem innfæddir segja að sé hefð, en Sea Sheperd gagnrýna harðlega.
Samtökin segja að tólf aðgerðasinnar hafi verið sakfelldir það sem af er ári. Um sextíu sjálfboðaliðar samtakanna eru enn í Færeyjum.
Færeysk yfirvöld hafa sagt að þau muni ekki þola neina truflun á hvalveiðum. Þær séu lögleglar, undir ströngu eftirliti og sjálfbærar.