Björgunarsveitir og leitarfólk sem sent var til að leita að braki flugvélarinnar sem hrapaði í Indónesíu í morgun hefur verið kallað heim aftur og mun leit hefjast að nýju í fyrramálið. Lélegt veður og skyggni gerði leitarmannskapnum erfitt fyrir og var því hætt við leitina í bili.
Flugvélin, sem var af gerðinni ATR 42-300 var á leið frá Jayapurass Sentani-flugstöðinni til Oksibil þegar flugstjórnaraðilar misstu samband við vélina. Gerðist þetta klukkan 14:55 að staðartíma. Talsmaður samgönguráðuneytisins í Indónesíu segir að flugstjórinn hafi ekki sent út nein neyðarskilaboð áður en sambandið slitnaði.
Sjá frétt mbl.is: Flugvélin hrapaði
Það voru svo íbúar í Papúa-héraðinu sem fundu brak úr vélinni og ljóst var að hún hefði hrapað. Fannst brakið nokkrum klukkustundum eftir að sambandið slitnaði. Enginn eftirlifandi hefur fundist eftir slysið. Fannst brakið úr vélinni um 24 km frá áfangastað hennar í Oksibil. 54 manns voru um borð í vélinni, þar á meðal fimm börn.
Yfirvöld í landinu vinna nú að því að kortleggja það sem gerðist með því að tala við vitni og íbúa í Papúa.
Sérfræðingur í flugmálum í Indónesíu segir svæðið þar sem vélin fórst vera afar erfitt viðureignar. „Það er fjalllendi á mjög afskekktum stað og flugbrautirnar eru oft nálægt fjallshlíðum. Það er ekki fyrir hjartveika að fljúga þarna,“ segir Gerry Soejatman í samtali við The Guardian.
Eins og áður hefur komið fram í frétt mbl.is er flugfélagið sem á vélina eitt af fjórum indónesískum flugfélögum sem meinað er að starfa innan Evrópusambandsins af öryggisástæðum.
Ekki eru nema fjórar vikur frá því að yfirvöld í Indónesíu ákváðu að taka til skoðunar flugflotann í landinu eftir stórt flugslys þar sem herflugvél fórst með þeim afleiðingum að 100 manns létu lífið. Er flugflotinn kominn til ára sinna og flugslys of algeng.
Sjá frétt mbl.is: Flugvél með 54 manns horfin