„Verkamannaflokkurinn undir Jeremy Corbyn verður ekkert annað en mótmælaflokkur.“ Þetta segir Gordon Brown, fyrrverandi leiðtogi flokksins og forsætisráðherra Bretlands frá 2007-2010.
Er hann nú annar fyrrverandi leiðtogi flokksins á skömmum tíma sem hvetur flokksmenn til þess að kjósa ekki Jeremy Corbyn sem er á meðal frambjóðanda í leiðtogakjöri breska Verkamannaflokksins. Kosningarnar standa nú yfir og verða kynntar á landsfundi flokksins í byrjun september.
Í ræðu sem Brown hélt fyrir flokksmeðlimi í dag hvetur hann flokksmenn til þess að líta „út á við, en ekki inn á við“ þegar þeir velja sér leiðtoga. Segir hann að hver og einn verði að kjósa þann sem hann telur líklegastan til að geta myndað ríkisstjórn eftir næstu þingkosningar árið 2020.
„Greiðið atkvæði fyrir þá sem þurfa á Verkamannaflokknum að halda,“ sagði Brown og bætti við að það sé engin skömm í því að vilja að flokkurinn komist aftur til valda sem fyrst og að vera tilbúinn til að gera hvað sem er til að ná því markmiði.
Sjá frétt mbl.is: Flokkurinn þurrkist út sigri Corbyn
Tony Blair, forveri Browns í embætti forsætisráðherra og leiðtogasæti Verkamannaflokksins sagðist fyrr í vikunni óttast að flokkurinn muni þurrkast út í næstu kosningum, hljóti Corbyn kjör.
Corbyn er áfram með talsvert forskot á mótframbjóðendurna í skoðanakönnunum.
Sjá frétt The Telegraph.