Flugvél með 54 manns horfin

AFP

Yfirvöld í Indónesíu segjast hafa misst samband við farþegavél Trigana Air með 54 manns innanborðs. Vélin var á leið frá Sentani flugvellinum í Jayapura, höfuðborg Papúa-héraðs, og til borgarinnar Oksibil.

54 manns eru um borð í vélinni, þar á meðal fimm börn og fimm áhafnarmeðlimir.

Umfangsmikil leit stendur nú yfir að vélinni.

ATR 42 flugvél Trigana Air missti samband við flugumferðarstjórn rétt fyrir klukkan þrjú að staðartíma í dag, klukkan sex í morgun að íslenskum tíma.

Flugferðin átti aðeins að taka 45 mínútur. Sambandið við vélina slitnaði um 33 mínútum eftir flugtak. J. A. Barata, talsmaður samgönguráðuneytis Indónesíu, segir að vélin hafi átt að lenda á flugvellinum í Oksibil rétt eftir klukkan þrjú að staðartíma.

„Við erum ekki enn viss hvað kom fyrir vélina,“ segir hann. Veðrið sé afar slæmt eins og sakir standa, myrkur og skýjað og þá sé svæðið fjöllótt.

Trigana Air er eitt fjölmargra indónesískra flugfélaga sem er meinað að starfa innan Evrópusambandsins af öryggisástæðum.

Farþegavél AirAsia hrapaði á leið sinni frá Surabaya í Indónesíu til Singapúrs í desember síðastliðnum. Allir um borð, 162 manns, létu lífið. Slysið varð til þess að yfirvöld í Indónesíu settu reglugerð til að bæta öryggismál flugfélaga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert