Utanríkisráðuneytinu hafa ekki borist neinar upplýsingar um Íslendinga á svæðinu þar sem sprengingin varð í Bangkok í dag. Þetta staðfestir Urður Gunnarsdóttir, upplýsingafulltrúi ráðuneytisins.
„Það hefur ekkert komið inn á okkar borð af fólki í tengslum við þetta. En það eru örugglega einhverjir í Taílandi, enda eru Íslendingar sem búa þar - en enginn sem við vitum að hafi verið þarna,“ segir hún í samtali við mbl.is.
Að minnsta kosti 16 eru látnir eftir sprengjuárásina, og yfir 80 eru slasaðir. Að sögn varnarmálaráðherra Taílands var skotmark árásarmanna ferðamenn, en að minnsta kosti tveir ferðamenn; frá Kína og Filippseyjum, eru á meðal látinna.
Sprengjunni var komið fyrir í mótorhjóli fyrir framan Erawan hofið, en hún sprakk um klukkan 19 að staðartíma. Þúsundir heimsækja Erawan hofið á degi hverjum, en þar er meðal annars að finna styttuna Phra Phrom af gyðjunni Brahma. Samkvæmt fréttum AFP fréttaveitunnar voru líkamshlutar á víð og dreif á torgi fyrir framan hofið eftir sprenginguna.
Nærliggjandi svæði hafa verið rýmd en fregnir herma að fleiri sprengjur séu á staðnum. Samkvæmt taílenskum fjölmiðlum hefur önnur sprengja fundist á svæðinu og unnið er að því að aftengja hana.
Enginn hefur lýst yfir ábyrgð á árásinni, en talið er líklegt að múslimar í suðurhluta landsins standi að baki henni.
Sjá einnig: Tala látinna í Bangkok hækkar