Hafa fundið brakið

Björgunarmenn um borð í leitarvél hafa komið auga á brak úr farþegavél Trigana Air sem hrapaði í Papúa í Indónesíu í gær. Reyk lagði frá brakinu, sem fannst í Bintang-fjöllum. Björgunarteymi eru á leið á vettvang með flugi og fótgangandi.

Fimm áhafnarmeðlimir og 49 farþegar voru innanborðs en vélin var á leið frá Jayapura, höfuðborg Papúa, til Oksibil. Allir um borð voru indónesar, en meðal farþega voru þrjú börn og tvö ungabörn.

Um borð voru einnig jafnvirði 300 þúsund punda, en um er að ræða neyðaraðstoð til handa fátækum fjölskyldum vegna vaxandi eldsneytiskostnaðar.

„Reyk lagði frá brakinu þegar leitarvélin kom auga á það,“ sagði Henry Bambang Soelistyo, framkvæmdastjóri leitar- og björgunaryfirvalda. Hann fer fyrir björgunaraðgerðum frá Sentani-flugvelli í Jayapura.

Soelistyo sagði að slæmt veður og stórskorið fjallendið gerði björgunarmönnum erfitt fyrir, en brakið er í um 2.600 metra hæð. Hann sagði að úrvalssveitir hersins myndu byggja þyrlupall nærri vettvangi til að auðvelda aðgerðir.

Leitarvélar fóru í loftið snemma í morgun eftir að þorpsbúar í þorpi skammt frá Oksibil sögðu staðaryfirvöldum að þeir hefðu séð vél brotlenda á fjallinu. Ferðin frá Jayapura til Oksibil átti aðeins að standa í um 42 mínútur.

Vélin sem um ræðir, af gerðinni ATR 42-300, fór jómfrúarflugið fyrir 27 árum en eigandi vélarinnar, flugfélagið Trigana Air, hefur verið á bannlista Evrópusambandsins frá 2007. Það á 14 flugvélar, þar af tíu ATR-vélar og fjórar Boeing 737. Meðalaldur vélanna er 26,6 ár.

 Guardian sagði frá.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert