Yvette Cooper, eitt leiðtogaefna Verkamannaflokksins, hefur viðurkennt að þreifingar hafi átt sér stað að tjaldabaki sem miðuðu að því að fá mótframbjóðendur Jeremy Corbyn til að draga framboð sín til baka, í þeim tilgangi að ógilda leiðtogakjörið.
David Miliband, fyrrverandi utanríkisráðherra, hefur bæst í hóp framámanna innan Verkamannaflokksins sem hafa stigið fram og varað við hörmungum ef Corbyn nær kjöri.
The Daily Telegraph sagði frá því í gær að Peter Mandelson, sem var ráðherra í ríkisstjórnum Gordon Brown og Tony Blair, hefði lagt á ráðin um að fá Cooper, Liz Kendall og Andy Burnham til að draga framboð sín til baka til að koma í veg fyrir að því er virðist óumflýjanlegan sigur Corbyn.
„Ég hef ekki rætt þetta við Peter Mandelson,“ sagði Cooper í dag. Hún sagðist hins vegar vita til þess að það sjónarmið hefði verið uppi að stöðva ferlið vegna þess mikla fjölda sem hefði gengið til liðs við flokkinn á síðustu stundu. Hún sagðist ósammála. „Ég tel það af hinu góða að fólk er að ganga í flokkinn“.
Guardian hefur eftir heimildarmanni að einstaklingar innan herbúða Kendall hafi reynt að fá hana og Cooper til að draga sig í hlé og lýsa yfir stuðningi við Burnham. Cooper hafi neitað og Kendall hafi ekki verið viljug til að draga framboð sitt til baka ein.
Kjörseðlar eru væntanlegir inn um bréfalúgur flokksmanna frá og með deginum í dag en styrinn um hina miklu nýliðun síðustu vikur og daga jókst enn þegar Ben Bradshaw, þingmaður fyrir Exeter og frambjóðandi til varaformanns Verkamannaflokksins, sagði að athuganir hefðu leitt í ljós að 10% nýskráðra flokksmanna í kjördæminu hefðu aldrei stutt Verkamannaflokkinn í kosningum.
„Corbyn hefur aðeins upp á að bjóða reiðilegan mótþróa. Það sem við þurfum á að halda er skýrleiki og hugrekki Kendall,“ sagði David Miliband í grein sem birtist í Guardian í dag. Þar lýsir hann yfir stuðningi við Liz Kendall en segir Yvette Cooper val númer tvö.
Miliband, sem tapaði naumlega fyrir bróður sínum Ed í leiðtogakjörinu 2010, segir Corbyn hafa sótt efnivið stefnu sinnar til hugmyndafræði sem væri löngu komin í þrot, t.a.m. um þjóðnýtingu og tvíræðni varðandi stöðu Bretlands innan Evrópusambandsins.
Hann segir annan valkost vissulega á borðinu; hugmyndir sem lúta að því hvernig taka beri á stöðnun launa, nútímavæða menntakerfið, tryggja umhverfisvæna orku og kljást við mannúðarhamfarir áður en þær verða að innflytjendakrísum við strendur Evrópu.
„Ég vil meina að [þessi stefna] sé hugsjónaríkari hvað varðar getu fólks til að koma saman og mynda hreyfingu sem getur breytt lífum. Hún leitast við að beita ríkisvaldinu eins og stingsverði, ekki barefli. Hún gerir ráð fyrir að framsæknar breytingar verði með erfiðu fortölustriti, en séu þeim mun meira gefandi fyrir vikið. Hún sér bandamenn, ekki ókunnuga, í Evrópu og NATO. Hún trúir því að kjósendur Íhaldsflokksins geti orðið kjósendur Verkamannaflokksins,“ segir Miliband.
Meðal annarra sem hafa varað við kjöri Jeremy Corbyn eru Tony Blair, Gordon Brown, Alistair Campell, Jack Straw og Neil Kinnock. Þeir hafa m.a. haldið því fram að Verkamannaflokkurinn muni aldrei sigra þingkosningar undir forystu Corbyn.
Það eru þó ekki allir sem örvænta vegna leiðtogakosninganna, ef ummæli Boris Johnson, borgarstjóra Lundúna, eru til marks um stemninguna innan Íhaldsflokksins.
„Ef allar þessar spár eru réttar - skoðanakannanir, veðmarkaðir, stjórnmálaspekingar - þá er hin ógnvænlega maskína Nýja-Verkamannaflokksins í einhvers konar óvæntu, ofbeldisfullu og sprenghlægilegu sundrunarferli,“ skrifar Johnson í Daily Telegraph.
„Það lítur raunverulega út fyrir að hin vægðarlausa skepna sem hefur unnið þrjá kosningasigra og vakið skelfingu í hjörtum íhaldsmanna sé að líða undir lok.“