Taka sér enn meira vald í hendur

AFP

Forseti Egyptalands hefur staðfest nýja hryðjuverkalöggjöf sem heimilar öryggissveitum að beita aukinni hörku og dauðarefsingar yfir þeim sem dæmdir eru fyrir að fara fyrir eða fjármagna „hryðjuverkahópa“. Þá verður yfirvöldum heimilt að sekta fjölmiðla sem birta fréttir um hernaðaraðgerðir, ef þær stangast á við opinberar yfirlýsingar stjórnvalda.

Mannréttindasamtök óttast að lögunum verði beitt til að þagga niður í gagnrýnendum stjórnvalda.

Meðferð frumvarpsins var flýtt eftir að ríkissaksóknarinn Hisham Barakat var ráðinn af dögum í sprengjuárás í júní sl. og íslamistar létu til skarar skríða í umfangsmiklum aðgerðum á Sinaískaga nokkrum dögum síðar.

Lögin hlífa öryggissveitum frá ákærum vegna valdbeitingar þegar um er að ræða „raunverulega og yfirvofandi ógn“. Þá verður hægt að fara fram á dauðarefsingu yfir þeim sem leiða eða fjármagna „hryðjuverkahópa“ og fangelsisdóma yfir þeim sem eru dæmdir fyrir að hvetja til „hryðjuverks“.

Dómsvaldið og öryggissveitir hafa þegar rúmar heimildir til að taka á „hryðjuverkastarfsemi“ en stjórnvöld hafa verið gagnrýnd fyrir að nota baráttuna við íslamista sem fyrirslátt til að þagga niður í andstæðingum sínum.

Að minnsta kosti 1.400 manns, margir stuðningsmenn Mohamed Morsi, fyrrverandi forseta, hafa verið drepnir í aðgerðum gegn mótmælendum frá 2013. Hundruð fylgismanna Bræðralags múslima hafa verið dæmdir til dauða í hröðum réttarhöldum og þúsundir fangelsaðir.

Nýju lögin gera einnig ráð fyrir að hægt verði að sekta fjölmiðlamenn fyrir að birta upplýsingar sem stangast á við opinberar yfirlýsingar stjórnvalda, en það vakti mikla reiði innan hersins þegar fjölmiðlar sögðu frá því að tugir hermanna hefðu fallið í árásunum á Sinaískaga. Samkvæmt opinberum upplýsingum féll 21 hermaður og fjöldi íslamista.

Samkvæmt lögunum geta sektir numið á bilinu 23.000-57.000 evrum, en gagnrýnendur segja að þær gætu sett minni dagblöð á hausinn og hrætt stærri miðla frá því að birta sjálfstæðan fréttaflutning af hernaðaraðgerðum gegn uppreisnarmönnum.

Stjórnvöld höfðu raunar stefnt að því að refsa blaðamönnum með fangelsisdómum í stað sekta, en frá því var fallið eftir hávær mótmæli frá egypskum fjölmiðlum. Þess ber að geta að þrír blaðamenn Al-Jazeera English voru í fyrra dæmdir fyrir að „níða“ Egyptaland og fyrir stuðning við Bræðralag múslima.

Meðal þeirra sem  hafa mótmælt lagasetningunni eru mannréttindasamtökin Amnesty International, sem segja m.a. að hún færi forsetanum vald sem eigi aðeins við í neyðarástandi. „Þessi lög færa landið aftur til valdatíðar Hosni Mubarak, þegar neyðarástand ríkti í þrjá áratugi,“ segir Mohamed El-Messiry, sérfræðingur Amnesty í málefnum Egyptalands.

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert