Tala látinna eftir sprengjuárásina í Bangkok í dag fer hækkandi, en að sögn lögreglu eru að minnsta kosti 16 látnir. Þá eru yfir 80 slasaðir samkvæmt upplýsingum frá sjúkrahúsi á svæðinu.
Að sögn varnarmálaráðherra Taílands var skotmark árásarmanna ferðamenn, en að minnsta kosti tveir ferðamenn; frá Kína og Filippseyjum, eru á meðal látinna.
Sjá einnig: Ferðamenn voru skotmarkið
Sjá einnig: Öflug sprenging í Bangkok
Sprengjunni var komið fyrir í mótorhjóli fyrir framan Erawan hofið, en hún sprakk um klukkan 19 að staðartíma. Þúsundir heimsækja Erawan hofið á degi hverjum, en þar er meðal annars að finna styttuna Phra Phrom af gyðjunni Brahma. Rúm 95% þeirra 67 millljón manns sem í landinu búa eru búddistar en aðrir eru ýmist múslimar eða hindúar.
Samkvæmt fréttum AFP fréttaveitunnar voru líkamshlutar á víð og dreif á torgi fyrir framan hofið eftir sprenginguna. Torgið hefur stundum verið nýtt til mótmæla í landinu, en þar hefur mikill óróleiki ríkt undanfarin ár. Landinu hefur verið stýrt af hernum frá því í maí í fyrra, en hann tók stjórnina eftir að mótmæli höfðu staðið mánuðum saman.
Eins og sjá má á mynd sem AFP fréttastofan deildi á Twitter-síðu sína er torgið skammt frá þinghúsinu. Nærliggjandi svæði hafa verið rýmd en fregnir herma að fleiri sprengjur séu á staðnum. Samkvæmt taílenskum fjölmiðlum hefur önnur sprengja fundist á svæðinu og unnið er að því að aftengja hana.
Enginn hefur lýst yfir ábyrgð á árásinni, en talið er líklegt að múslimar í suðurhluta landsins standi að baki henni.
Bangkok bomb blast pic.twitter.com/fPcBk2qk1N
— Agence France-Presse (@AFP) August 17, 2015