Forsætisráðherra Taílands segir sprengjutilræðið í miðborg Bangkok í gær skelfilegustu árásina sem hefur orðið í landinu. Tuttugu létust í tilræðinu, þar af átta ferðamenn frá Kína, Hong Kong, Indónesíu, Malasíu og Singapúr.123 særðust í árásinni.
Sprengjunni hafði verið komið fyrir í mótorhjóli í grennd við þekkt hindúahof, Erawan, sem margir ferðamenn skoða, einkum fólk frá öðrum Asíulöndum. Einnig eru mörg dýr hótel og verslanamiðstöðvar á svæðinu. Óttast er að tilræðið ýti undir ókyrrð og átök.
Prayuth segir að ekki sé vitað hverjir stóðu á bak við árásina en lögregla rannsaki nú einn grunsamlegan mann sem sást á myndum úr öryggismyndavélum hofsins. Sá sást greinilega á upptökum frá hofinu. Maðurinn er grunaður um að tilheyra stjórnarandstöðusamtökum sem starfa í norðausturhluta landsins.
Sprengjan sprakk um sjöleytið að kvöldi að staðartíma, klukkan 12 á hádegi á íslenskum tíma, þegar fjölmenni var á svæðinu, bæði í hofinu og við Ratchaprasong gatnamótin. Á síðustu árum, áður en herinn tók völdin, hefur oft verið efnt til fjölmennra mótmæla á svæðinu sem kennt er við Ratchaprasong gatnamótin.
Prayuth segir að áður hafi verið um minniháttar sprengjutilræði að ræða í landinu en nú hafi fólk dáið. „Þeir vilja eyðileggja hagkerfi okkar og ferðaþjónustunni,“ segir Prayuth í samtali við BBC.
Fréttamaður BBC á staðnum, Jonathan Head, segir að það sé mikill öryggisviðbúnaður við hofið og þar séu fjölmargar öryggismyndavélar. Lögregla rannsakar nú myndir úr þeim og hefur einnig fengið myndir og myndskeið frá fólki sem var á svæðinu þegar sprengjan sprakk.