Landeigandinn sem á landsvæðið þar sem ljónið Cecil var skotið til bana í júlí á þessu ári hefur verið ákærður af yfirvöldum í Zimbabwe. Honest Ndlovu á landsvæði sem liggur að Hwange þjóðgarðinum í vesturhluta Zimbabwe og er hann ákærður fyrir að hafa leyft á sínu landi annars ólöglega veiði á ljónum.
Ndlovu var fyrst handtekinn en honum síðan sleppt gegn 200 dala tryggingu. Mál hans verður tekið fyrir í dómssal þann 18. september. Samkvæmt yfirvöldum í Zimbabwe hefur bandaríski tannlæknirinn Walter James Palmer ekki verið ákærður en málið er enn til rannsóknar.
Palmer fór í felur fyrst eftir að fréttir fóru að berast af ljónamorði hans. Hann kom hins vegar úr felum í gær eins og mbl.is greindi frá.
Oppah Michinguri, umhverfisráðherra landsins, sagði við fjölmiðla í júlí að Palmer verði framseldur til landsins og síðan ákærður. Fulltrúi ákæruvaldsins sagði hins vegar við fjölmiðla í dag að embættinu hafi ekki enn borist nægileg gögn til að geta krafist framsals.
Eftir ljónadrápið ákvað ríkisstjórn Zimbabwe að herða enn á lögum gegn veiðum á ljónum, fílum og blettatígrum. Ljónið Cecil var vinsælt á meðal ferðamanna og vakti drápið á því mikla athygli í fjölmiðlum um allan heim.
Maður að nafni Theo Bronkhorst, sem aðstoðaði Palmer við veiðina hefur einnig verið ákærður fyrir að hafa ekki komið í veg fyrir drápið en hann starfar sem veiðimaður á svæðinu.
Sjá frétt CBS-news.