Óljóst um ástæður árásarinnar

Ástvinir kínversks ferðamanns bregðast við eftir að hafa borið kennsl …
Ástvinir kínversks ferðamanns bregðast við eftir að hafa borið kennsl á líkamsleifar hans. AFP

Yfirvöld í Taílandi segjast hafa borið kennsl á þann sem framkvæmdi sprengjuárás fyrir utan helgidóm í Bangkok í gær. Að minnsta kosti 20 létu lífið í árásinni, sem yfirvöld segja þá verstu í sögu konungdæmisins.

Helgidómurinn er vinsæll áfangastaður ferðamanna og í nágrenninu er að finna lúxushótel og dýrar verslanamiðstöðvar. Fleiri en 100 særðust þegar sprengjan sprakk og á vettvangi mátti sjá líkamsparta á víð og dreif innan um glerbrot og brunnar rústir.

Meðal þeirra sem létust voru einstaklingar frá Kína, Hong Kong, Singapore, Indónesíu og Malasíu.

Prayut Chan-O-Cha, fyrrverandi herforingi og núverandi forsætisráðherra Taílands, sagði í dag að leit stæði yfir að grunsamlegum manni sem hefði sést við helgidóminn. Hann sagði að maðurinn væri grunaður um að hafa staðið að árásinni.

Lögregluyfirvöld hafa dreift upptöku sem sýnir ungan mann í gulum stuttermabol ganga nærri helgidómnum með bakpoka, en skömmu síðar sést hann ganga á brott án bakpokans. „Málið er að skýrast,“ sagði varnarmálaráðherrann Prawit Wongsuwon við blaðamenn, en neitaði að veita frekari upplýsingar.

Yfirvöld hafa ekki tjáð sig um mögulegar ástæður árásarinnar.

Viðvarandi ófriður en engin augljós sökudólgur

Alda ofbeldis hefur gengið yfir Taíland síðustu ár í valdabaráttu milli hersins, sem nýtur stuðnings millistéttarinnar og forréttindahópa, og fátækari íbúa landsins, sem hafa fylkt sér að baki popúlistanum Thaksin Shinawatra.

Shinawatra hefur verið í sjálfskipaðri útlegð frá því að honum var steypt af stóli árið 2006. Herforingjastjórn hefur verið við völd í landinu frá því í maí á síðasta ári, þegar herinn gerði valdarán og fangelsaði þáverandi forsætisráðherra, Yingluck Shinawatra, en hún er systir Thaksin.

Síðustu tíu ár hefur margsinnis verið efnt til mótmæla sem hafa endað með manntjóni. Árið 2010 létu 90 lífið í átökum milli öryggissveita og stuðningsmanna Thaksin, m.a. á því svæði þar sem sprengjuárásin átti sér stað í gær.

Stjórnarandstæðingar hafa hins vegar aldrei framkvæmt árás af þessari stærðargráðu né beint sjónum sínum að ferðamannastöðum, líkt og raunin var í gær.

Sérfræðingar segja erfitt að geta sér til um hver hafi skipulagt voðaverkið. Múslímskir uppreisnarmenn hafa látið til sín taka í suðurhluta landsins og kostað fjölda almennra borgara lífið, en þeir hafa ekki látið til skarar skríða í Bangkok og þá segja sérfræðingarnir sprengjuárásina í gær ekki dæmigerða fyrir aðferðafræði vígamannanna.

Maðurinn sést fyrst bera bakpoka við helgidóminn, en þegar hann …
Maðurinn sést fyrst bera bakpoka við helgidóminn, en þegar hann gengur á brott er bakpokinn horfinn. AFP
Erawan-helgidómurinn hefur verið girtur af.
Erawan-helgidómurinn hefur verið girtur af. AFP
Lögreglumenn virða fyrir sér ummerki eftir sprenginguna.
Lögreglumenn virða fyrir sér ummerki eftir sprenginguna. AFP
Svæðið laðar að fjölda ferðamanna en í nágrenninu eru lúxushótel …
Svæðið laðar að fjölda ferðamanna en í nágrenninu eru lúxushótel og -verslanir. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert