Carter með krabbamein í heila

Jimmy Carter, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna.
Jimmy Carter, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna. AFP

Krabbameinið sem Jimmy Carter, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, greindist með hefur dreift sér í heila hans. Carter, sem er níræður, upplýsti um þetta á blaðamannafundi í dag en hann fer í sína fyrstu geislameðferð til þess að vinna á æxlinu síðar í dag. 

Upphaflega greindist Carter með krabbamein í lifur en forsetinn fyrrverandi lýsti því í dag hvernig læknar hefðu fundið sortuæxli í heila hans í kjölfarið. Sagði hann framtíð sína liggja í höndum guðs sem hann tilbæði.

Carter sagði að hann hefði fundið fyrir miklum stuðningi í kjölfar tíðindanna. Þannig hefðu John Kerry, utanríkisráðherra, og fyrrverandi forsetarnir George H. W. Bush og George W. Bush þegar haft samband við hann.

Vegna veikindanna sagðist Carter myndu vinna minna fyrir Carter-stofnunina sem hann kom á fót til þess að berjast gegn hungri, sjúkdómum, fátækt og átökum í heiminum, og fyrir Emory-háskólann.

Þrjú systkini Carter og faðir hans létust öll úr krabbameini í brisi og móðir hans fékk brjóstakrabbamein sem dreifði sér síðar í brisið.

Frétt CNN af veikindum Jimmy Carter

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert