Fleiri gögnum um framhjáhaldssíðuna lekið

Einkunnarorð Ashley Madison er: Lífið er stutt. Haltu framhjá.
Einkunnarorð Ashley Madison er: Lífið er stutt. Haltu framhjá. AFP

 Tölvuhakkararnir sem gáfu út  upplýsingar um 32 milljónir notenda framhjáhaldssíðunnar Ashley Madison á þriðjudag hafa gefið út það sem sagt er vera annar og mun stærri skammtur af gögnum tengdum vefsíðunni.

Á þriðjudag birtust tölvupóstföng og upplýsingar um reikninga notenda en seinni lekinn virðist innihalda gögn og tölvupósta tengd innviðum fyrirtækisins samkvæmt vefsíðunni Motherboard. Mbl.is hefur öruggar heimildir fyrir því að íslensk netföng hafi verið á meðal gagnanna sem lekið var á þriðjudag.

Motherboard segir gagnamagnið sem hakkararnir birtu á svokölluðum „undirheimum netsins“ (e. dark Web) í dag hafi  numið 20 gígabætum og því verið tvöfalt á við skrána sem birt var á þriðjudag.

Með skránni fylgdu skilaboð sem virtust beinast að stofnanda Ashley Madison, Noel Biderman, sem hafði áður dregið sannleiksgildi gagnanna í efa.

„Hey Noel, nú geturðu játað að þetta er raunverulegt,“ sagði í skilaboðunum.

Sérfræðingar í netöryggi hafa sagt fyrstu skrána sem lekið var virðast raunverulega og hún hefur þegar haft ýmsar afleiðingar í för með sér fyrir fólk sem virðist hafa verið skráð á síðuna.

Varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, Ashton Carter, hefur meðal annars sagt að Pentagon rannsaki nú hvort meðlimir Bandaríkjahers hafi verið á síðunni þar sem hægt er að sækja hermenn til saka fyrir hjúskaparbrot.

Gögnunum var upprunalega stolið af hökkurum sem kalla sig „Impact team“ fyrir mánuði síðan en þeir segja markmið sitt vera að loka síðunni. Ashley Madison er þekkt fyrir slagorðið „Lífið er stutt. Haltu framhjá,“ og eru það einmitt þau skilaboð sem hökkurunum virðast ekki hugnast.

Skjáskot af skránni sem um ræðir en svo virðist sem …
Skjáskot af skránni sem um ræðir en svo virðist sem tölvupóstar Noel Biderman séu á meðal gagnanna.
Skilaboð tölvuhakkaranna til stofnanda Ashley Madison.
Skilaboð tölvuhakkaranna til stofnanda Ashley Madison.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert