Hakkararnir rjúfa þögnina

Hakkararnir gera lítið úr þeim vefvörnum sem Ashley Madison hafði …
Hakkararnir gera lítið úr þeim vefvörnum sem Ashley Madison hafði úr að spila. AFP

Tölvuhakkararnir sem lekið hafa gögnum af framhjáhaldssíðunni Ashley Madison síðustu daga birtu þriðja skammtinn af gögnum í gær og vöruðu við því að þeir ættu enn haug af óbirtum, viðkvæmum gögnum.

Vefsíðan Motherboard tók viðtal við hakkarana í gegnum tölvupóst þar sem þeir gerðu lítið úr þeim kerfum sem Ashley Madison notaði til að vernda viðskiptavini sína.

Hakkararnir sögðust hafa unnið mikla undirbúningsvinnu til að tryggja að enginn tæki eftir árásinni en þegar allt kom til alls var ekkert öryggiskerfi sem þurfti að snúa á. „Enginn var að fylgjast með,“ segja þeir í viðtali Motherboard.

Persónulegum upplýsingum um í það minnsta 37 milljónir viðskiptavina síðunnar var lekið í vikunni og er talið líklegt að flóðbylgja skaðabótamála á hendur Avid Life Media sem á síðuna sé yfirvofandi.

Hakkararnir segjast eiga mun meira efni, um 300 gígabæti af gögnum, sem inniheldur allt frá tölvupóstum starfsfólks yfir í myndir og einkasamtöl notenda. Segjast þeir einnig tilbúnir að ráðast á önnur fyrirtæki sem „græða pening á þjáningum annarra“ sem og á spillta stjórnmálamenn.

Hakkararnir neita því að hafa reynt að kúga notendur Ashley Madison og segja slíkar ásakanir eiga að beinast að fyrirtækinu sjálfu.

„Avid Life Media er eins og fíkniefnasali að misnota fíkla.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka