„Við höfum borið kennsl á alla hina látnu en það gætu fleiri hafa dáið sem við höfum ekki fundið ennþá. Við munum halda áfram að leita,“ segir Jane Derrick, yfirmaður lögreglunnar í Sussex um vettvang flugslyssins þegar herflugvél hrapaði þegar hún gerði bakfallslykkju á flugsýningu í Suður-Bretlandi í dag.
Alls eru staðfest 7 andlát og 14 slösuðust, þar af sumir alvarlega. Enginn hinna látnu eða slösuðu voru áhorfendur flugsýningarinnar, heldur voru þeir auk flugmannsins ökumenn á hraðbrautinni A27 þar sem flugvélin skall til jarðar.
Sjá frétt mbl.is: Hrapaði í miðri flugsýningu
Um 20 þúsund manns voru á flugsýningunni. Vitni segja að þögn hafi slegið á áhorfendur við slysið. Gestum flugsýningarinnar var haldið á sýningarsvæðinu þar til nú í kvöld. Lögreglan vildi fá afrit af öllum myndböndum af slysinu sem nota á í rannsókn málsins.
David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, sendi fjölskyldum hinna látnu samúðarkveðjur í kvöld. „Forsætisráðherrann sendir hjartans kveðjur til fjölskyldna hinna látnu þegar flugvélin hrapaði á hraðbraut í vesturhluta Sussex. Hugur forsætisráðherrans er með fjölskyldum hinna látnu,“ sagði í tilkynningu frá embættinu.
Formaður rannsóknarnefndar flugslysa í Bretlandi segir rannsóknina þegar hafna. „Við eigum í nánu samstarfi við lögregluna í Sussex og við munum kynna skýrslu okkar eins fljótt og auðið er,“ segir í tilkynningu frá nefndinni.
Slysið í dag er annað banaslysið á flugsýningunni á undanförnum árum. Árið 2007 lést áhættuleikarinn Brian Brown, sem þekktur var fyrir áhættuleik sinn í kvikmyndunum um njósnarann James Bond.
Sjá frétt Sky News.