Árásarmaðurinn með tengsl við Sýrland

Maðurinn sem var yfirbugaður í lest á leið frá Amsterdam til Parísar í gær eftir að hann dró fram skotvopn er sagður hafa farið til Sýrlands árið 2014. Verið er að yfirheyra manninn í París en hann segist vera 26 ára gamall og frá Marokkó. Hann segist hafa búið á Spáni árið 2014 og í Belgíu á þessu ári en innanríkisráðherra Frakklands, Bernard Cazeneuve, segir að spænsk lögregluyfirvöld hafi látið franska kollega sína vita af tengslum mannsins við öfgasamtök í Sýrlandi. Rannsókn stendur yfir í Belgíu sem ætlað er að ákvarða nákvæmlega hvaðan maðurinn kom.

The Telegraph hefur eftir Cazeneuve að ólíkt því sem áður hefur komið fram í fréttum hafi það ekki verið hermennirnir tveir sem voru fyrstir til að veita manninum viðspyrnu í lestinni heldur franskur farþegi.

Sagði hann farþegann hafa viljað komast á klósettið í vagni 12 en rambað á einstakling með Kalashnikov riffil yfir öxlina. Farþeginn reyndi að tækla árásarmanninn sem skaut nokkrum skotum af rifflinum. Í kjölfarið var árásarmaðurinn tæklaður af bandarísku hermönnunum tveim sem bundu hann og fjarlægðu vopn hans. Cazeneuve lofaði hugrekki frönsku og bandarísku farþeganna, líkt og belgísk, bandarísk og bresk yfirvöld hafa nú þegar gert.

 Starfsfólkið lokaði sig af

Franski leikarinn Jean-Hugues Anglade, sem var meðal farþega, hefur hinsvegar bent á hegðun sem honum þykir allt annað en hetjuleg. Segir hann starfsfólk lestarinnar hafa girt sig af í skjóli frá árásarmanninum og neitað að hjálpa farþegunum sem sátu fastir.

Í viðtali við Paris Match lýsir hann fölum augum starfsfólksins í því sem þau hröðuðu sér að skrifstofu sinni í lestinni, opnuðu dyrnar með sérstökum lykli og lokuðu sig inni.

„Við lömdum í dyrnar, æpandi á starfsfólkið að hleypa okkur inn, við æptum „Opnið“, maður vonaðist til þess að þau myndu bregðast við. Það var árangurslaust...enginn brást við.“

Segir hann viðbrögð starfsfólksins hafa verið ómannúðleg. „Mínútur liðu eins og klukkustundir. Ég verndaði börnin mín með öllum líkama mínum og sagði þeim endurtekið að allt yrði í lagi.“

Ljósmynd tekin af farþega í lestinni sýnir einn þeirra sem …
Ljósmynd tekin af farþega í lestinni sýnir einn þeirra sem slasaðist í árásinni. AFP
Rannsóknarlögregla að störfum við lestina.
Rannsóknarlögregla að störfum við lestina. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert