Segist hafa fundið vopnin á bekk

Ayoub El-Khazzani
Ayoub El-Khazzani AFP

Nafn byssumannsins sem var yfirbugaður af farþegum lestar frá Amsterdam til París í fyrradag hefur verið afhjúpað. Maðurinn heitir Ayoub El-Khazzani og er 26 ára Marokkómaður sem var búsettur á Spáni þar til í fyrra.

Maðurinn kom ber að ofan út af salerni með AK-47 riffil, skammbyssu og dúkahníf. Bandarískur maður, búsettur í Frakklandi, reyndi að ná manninum niður sem þá skaut nokkrum skotum af einni byssunni með þeim afleiðingum að einn særðist. Í kjölfarið var hann yfirbugaður af þremur bandarískum ferðalöngum, þar af tveimur hermönnum í fríi, og einum Breta.

Telegraph greinir frá því að El-Khazzani hafi stigið um borð í lestina við lestarstöð sem er í nágrenni markaðar sem er þekktur fyrir ólöglegt brask. Lestarstöðin, Brussels Gare du Midi er aðeins fáeinum metrum frá markaðnum þar sem hryðjuverkamennirnir að baki árásinni á Charlie Hebdo keyptu vopn sín.

Telegraph segir El-Khazzani upprunalega hafa verið samvinnuþýðan við lögreglu framan af en að svo hafi hann gerst þögull sem gröfin. Hefur miðillinn eftir verjandanum sem fyrst var falið að taka að sér málið að hann sé furðu lostinn yfir því hvernig aðgerðir hans hafi verið túlkaðar.

„Hann skilur ekki hvers vegna þessi saga hefur fengið svo mikið vægi. Hann segir að hann hafi aðeins viljað kúga peningum út úr farþegum [lestarinnar], ekkert annað. Hann neitar að ráðagerð hans hafi nokkra tengingu við hryðjuverk. Það fékk hann næstum til að hlæja.“

Maðurinn kveðst hafa fundið riffilinn, skammbyssuna og farsíma á bekk við brautarstöðina í Brussel þar sem hann svaf. Segist hann hafa verið heimilislaus frá því að skilríkjum hans var stolið í Brussel.

„Hann vann áður sem húsamálari á Spáni og var dæmdur fyrir tvö fíkniefnabrot árið 2013. Síðustu sex mánuði hefur hann ferðast til Spánar, Andorra, Belgíu, Austurríkis, Þýskalands og Frakklands. Hinsvegar neitar hann að hann hafi farið til Tyrklands eða Sýrlands.“

Eins og fram hefur komið er maðurinn talinn hafa tengsl við Sýrland. Spænsk yfirvöld vörður frönsk yfirvöld við honum í febrúar 2014. Í kjölfarið var hann flokkaður sem þriðja stigs ógn við almannaöryggi af yfirvöldum í Frakklandi en flokkunin nær frá 16 (minnst hættulegur) til 1 (mest hættulegur).

Faðir El-Khazzani ræddi við Telegraph í dag vegna málsins og sagði son sinn vera góðan dreng. „Ég hef ekki hugmynd um hvað hann var að hugsa og ég hef ekki talað við hann í meira en ár,“ sagði El-Khazzani um son sinn. „Hann var góður drengur, mjög vinnusamur.“

Blaðamaður Telegraph segir föðurinn hafa grátið á meðan samtali þeirra stóð og sagt að sonur sinn talaði aldrei um stjórnmál, aðeins um fótbolta og veiðar.

Þrír mannanna sem yfirbuguðu El-Khazzani á blaðamannafundi ásamt bandaríska sendiherranum …
Þrír mannanna sem yfirbuguðu El-Khazzani á blaðamannafundi ásamt bandaríska sendiherranum í París í dag. AFP
Lögregla við rannsókn í lestinni.
Lögregla við rannsókn í lestinni. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert