Rússland verður að greiða Hollandi skaðabætur vegna upptöku á Arctic Sunrise, einu skipa Greenpeace, á meðan á mótmælum stóð vegna olíuborana rússneska olíurisans Gazprom árið 2013.
Þetta var niðurstaða Alþjóðagerðardómsins í Haag, sem komst að þeirri niðurstöðu að Holland ætti inni skaðabætur og vexti hjá Rússlandi vegna skemmda á Arctic Sunrise og vegna þeirra sem voru um borð þegar skipið var gert upptækt.
Rússnesk yfirvöld tóku skipið yfir í september 2013 og tóku 30 aðgerðasinna og blaðamenn höndum, við mótmæli við olíuborpall Gazprom. Viðbrögð Rússa við mótmælunum vöktu hörð viðbrögð víða um heim en aðgerðasinnarnir, sem urðu þekktir undir heitinu „Arctic 30“ voru í fyrstu sakaðir um sjóræningjastarfsemi.
Frétt mbl.is: Upptaka af aðgerðum Rússa birt
Sakargiftunum var síðar breytt í „spellvirki“ en fólkið sat í haldi í tvo mánuði áður en því var sleppt gegn tryggingu. Rússar skiluðu skipinu í fyrra.
Stjórnvöld í Hollandi stefndu Rússlandi fyrir Alþjóðagerðardómnum í október 2013, en 117 ríki eiga aðild að dómnum sem er ætlað að miðla málum milli ríkja. Hollendingar fóru fram á að dómurinn úrskurðaði að Rússar hefðu brotið gegn alþjóðlegum hafréttarsáttmálum.
Þau fóru einnig fram á að dómurinn úrskurðaði að rússneskum stjórnvöldum hefði láðst að verða við fyrirskipun Alþjóðlega hafréttardómsins í Hamburg um að þeim bæri að afhenda skipið og sleppa áhöfn þess umsvifalaust.
Yfirvöld í Rússlandi sendu hvorki fulltrúa til að vera viðstaddir málsmeðferð í Hamburg né í Haag.
Það var niðurstaða Alþjóðagerðardómstólsins að Rússar hefðu ekki orðið við tilmælum hafréttardómsins og þar með brotið gegn hafréttarsáttmálanum. Þá komst dómstólinn að þeirri niðurstöðu að Rússum bæri að endurgreiða tryggingarféð sem reitt var af hendi vegna aðgerðarsinnanna.
Niðurstöður Alþjóðagerðardómstólsins eru bindandi, en ríki geta farið fram á „leiðréttingu“ skaðabótaupphæða innan mánaðar frá því að dómur er kveðinn upp.
Bert Koenders, utanríkisráðherra Hollands, fagnaði niðurstöðu dómstólsins og sagði hana tryggja að skip á alþjóðlegu hafsvæði ættu ekki að eiga það á hættu að vera tekin yfir og áhafnir handteknar.
„Jafnvel þótt [áhöfnin] sé að iðka rétt sinn til að mótmæla,“ sagði Koenders.
„Tjáningarfrelsið og rétturinn til að mótmæla eru Hollandi afar mikilvæg og við munum standa vörð um þau,“ sagði hann.
Talsmenn Greenpeace hafa einnig fagnað dóminum og segja hann mikilvægt fordæmi.
„Við vonum að þetta muni aftra öðrum löndum frá álíka agressívum tilraunum til að þagga niður mótmæli, hvort sem er á landi eða sjó,“ sagði Daniel Simons, lögmaður samtakanna, í yfirlýsingu.
Frétt mbl.is: Dómstóll fer fram á að Grænfriðungum verði sleppt
Dómurinn þykir líklegur til að torvelda samskipti Hollands og Rússlands, en þau hafa verið stirð frá því að farþegaþotan í flugi MH17 var skotin niður í austurhluta Úkraínu í júlí í fyrra. Allir um borð létu lífið en flestir voru hollenskir ríkisborgarar.
Hollenskir rannsakendur sögðu fyrr í þessum mánuði að þeir hefðu fundið brot á vettvangi sem væru „líklega“ úr rússnesku flugskeyti, en stjórnvöld í Úkraínu og fleiri hafa sakað úkraínska aðskilnaðarsinna um að granda vélinni með BUK-flugskeytakerfi frá Rússum.
Bæði aðskilnaðarsinnar og stjórnvöld í Moskvu hafa neitað ásökununum.