Innsæinu að þakka

Breska kaupsýslumanninum Chris Norman og þremur bandarískum vinum, Spencer Stone, Anthony Sadler og Alek Skarlatos verður í dag veitt æðsta heiðursviðurkenning franska ríkisins, Légion d’honneur, úr hendi Frakklandsforseta, François Hollande. Viðurkenninguna hljóta þeir fyrir að stöðva vopnaðan mann í hraðlest á milli Amsterdam og París á föstudag. 

Að sögn  Spencer Stone, sem er í bandaríska flughernum, var það innsæinu að þakka að þeir félagarnir, nývaknaðir, yfirbuguðu manninn sem talið er að hafi ætlað að fremja hryðjuverkaárás. 

Þeir Spencer Stone, Anthony Sadler og Alek Skarlatos eru æskufélagar en þeir ólust upp saman í Kaliforníu. Þeir voru saman á ferðalagi og voru allir sofandi þegar þeir heyrðu hljóð sem líktist því þegar gler brotnar fyrir aftan sig. Þegar þeir litu við sáu þeir mann beran að ofan koma inn í vagninn vopnaðan Kalashinikov riffli. Stone stökk á fætur og réðst á manninn. 

„Ég vaknaði upp af værum svefni og sá að Alek sat við hliðina á mér,“ segir Stone í viðtali við Guardian. Hann segist hafa séð manninn vopnaðan AK47 riffli sem virðist sitja á sér. Maðurinn hafi verið að reyna að hlaða vopnið en það hafi gengið illa. „Alek sló mig í öxlina og sagði látum vaða og ég stökk af stað og felldi hann, Alek stökk upp og afvopnaði hann á meðan ég hélt honum,“ segir Stone. 

Hann segir að árásarmaðurinn hafi verið þungvopnaður og náð að taka upp skammbyssu en Alek náði henni af honum. Þá tók hann upp dúkahníf og skar Stone með hnífnum. 

Stone segir að þeir félagarnir hafi náð að yfirbuga hann en hann muni vart atburðarrásina í smáatriðum. 

Árásarmaðurinn, 25 ára gamall Marokkóbúi, Ayoud El-Khazzani, náði að skera Stone í hendina og þykir mesta mildi að hann skar ekki þumalfingurinn af Stone.

Aðspurður um El-Khazzani, sem er í haldi, segist Stone hafa metið það svo að það hafi ekkið komið til greina hjá honum að gefast upp og það sama hafi gilt um þá félaga. 

Rúmlega fimmtugur maður, Mark Moogalian, sem er bæði með bandarískt og franskt ríkisfang hafði áður reynt að yfirbuga El-Khazzani án árangurs og hafði byssumaðurinn skotið hann. Blæddi mikið úr hálsi hans og kom Stone honum til bjargar með því að troða tveimur fingrum inn í sárið og hélt hann sárinu lokuðu þar til sjúkraliðar komu um borð í lestina á Arras lestarstöðinni í Norður-Frakklandi þar sem lögregla handtók El-Khazzani.

Moogalian er prófessor við Sorbonne háskólann í París og að sögn systur hans, í samtali við Telegraph, réðst hann á El-Khazzani til þess að verja eiginkonu sína, Isabellu Risacher, sem einnig var um boð í Thalys lestinni. Hann er enn á sjúkrahúsi og er talið að hann hafi lamast að hluta á vinstri hendi en Moogalian er í gríðarlega góðu formi segir systir hans þar sem hann æfir bæði hlaup og hjólreiðar. Forseti Frakklands hefur verið í sambandi við hann og þeir ætla að hittast þegar Moogalian hefur heilsu til.

Norman, sem er 62 ára gamall breskur kaupsýslumaður og býr í Suður-Frakklandi þar sem hann starfar. Norman segir að hann hafi sagt við sjálfan sig að það væri betra að deyja við að reyna að stöðva byssumanninn heldur en að sitja bara úti í horni og láta skjóta sig. 

Að sögn Normans sat hann í klefa sínum þegar hann heyrði skothvell og rúðu brotna. Síðan hafi hann séð einhvern á hlaupum vopnaðan riffli eða vélbyssu. „Það fyrsta sem kom upp í hugann var að setjast niður og fela mig. En síðan heyrði ég Bandaríkjamann segja náðu honum,“ segir Norman og segist hafa hugsað að það væri sennilega betra að starfa saman í stað þess að fela sig og reyna að yfirbuga manninn. 

Samkvæmt upplýsingum frá frönsku lögreglunni er Ayoub El-Khazzani með tengsl við öfgafull íslömsk hryðjuverkasamtök en frönsk yfirvöld voru vöruð við honum af spænskum yfirvöldum í febrúar í fyrra. 

Anthony Sadler, Alek Skarlatos og Chris Norman
Anthony Sadler, Alek Skarlatos og Chris Norman AFP
Chris Norman,
Chris Norman, AFP
Spencer Stone
Spencer Stone AFP
Jane Hartley, sendiherra Bandaríkjanna í Frakklandi og félagarnir þrír Spencer …
Jane Hartley, sendiherra Bandaríkjanna í Frakklandi og félagarnir þrír Spencer Stone, Anthony Sadler og Alek Skarlatos AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert