Hetjudáð þriggja bandarískra manna, sem yfirbuguðu vopnaðan mann í lest í Frakklandi um helgina hefur vakið heimsathygli. En hver er hinn 25 ára gamli Ayoub El Khazzani sem fór um borð lestarinnar þungvopnaður á föstudaginn? Er hann íslamskur öfgamaður eða heimilislaus maður sem fann mikið af vopnum og ákvað einfaldlega að reyna að ræna lest?
Í frétt AFP kemur fram að Khazzani, sem kemur frá Marokkó, hafi komið um borð lestarinnar í Brussel en hún var á leið til Parísar. Hann var vopnaður Kalashnikov riffli, sjálfvirkri skammbyssu, dúkahnífi og með stóran skammt af skotfærum . Að sögn vitna kom hann út úr salerni með riffilinn og bakpoka og náði hann að skjóta einn lestarfarþega áður en hann var yfirbugaður.
Khazzani var undir eftirliti leyniþjónustu Spánar, Frakklands, Belgíu og Þýskalands fyrir íslamskar öfgaskoðanir sínar. Hann flutti til Spánar frá Marokkó árið 2007, þegar hann var átján ára. Hann bjó fyrst í Madrid en síðar í hafnarborginni Algeciras. „Hann var mjög góður piltur, mjög duglegur,“ sagði faðir mannsins, Mohamed El Khazzani í samtali við The Telegraph. „Ég hef ekki hugmynd um hvað hann var að hugsa og ég hef ekki talað við hann í rúmt ár.“
Hann sagði jafnframt að sonur sinn hafi „aldrei talað um stjórnmál, bara fótbolta og veiðar.“
En spænska leyniþjónustan heldur því fram að Khazzani hafi lifað á hinum og þessum störfum og eiturlyfjasölu. Samkvæmt spænska dagblaðinu El Mundo var Khazzani daglegur gestur í róttækri mosku í Algeciras, ásamt föður sínum. Eftirlit með manninum hófst eftir að hann varði heilagt stríð (jihad) opinberlega. Að sögn föður hans yfirgaf Khazzani Spán og fór til Frakklands á síðasta ári. Þar átti hann að hafa skrifað undir sex mánaða starfssamning hjá símafyrirtæki en honum var sagt upp eftir aðeins mánuð. Síðan þá var lítið sem ekkert vitað um ferðir hans fyrr en nú.
Að sögn spænsku leyniþjónustunnar fór Khazzani til Sýrlands frá Frakklandi en hann hefur neitað því. Frönsk yfirvöld hófu eftirlit með Khazzani eftir að spænsk yfirvöld vöruðu við honum. Þau urðu þó ekki vör við hann fyrr en í maí á þessu ári þegar hann bókaði sér flugfar til Tyrklands.
Talið er að Khazzani hafi síðast haldið til í Brussel. Hann hefur sjálfur sagt eftir árásina á föstudaginn að hann væri heimilislaus og að hann hafði fundið poka fullan af vopnum. Þá ákvað hann að ræna lest. Hann neitar fyrir það að vera hryðjuverkamaður.
„Einu hryðjuverkin sem hann hefur framið er að stunda hryðjuverk fyrir mat, hann á ekki pening til þess að borða nóg,“ sagði faðir hans í samtali við El Mundo.
Einn þeirra sem yfirbugaði manninn í lestinni Anthony Sadler neitar því að Khazzani hafi aðeins ætlað að ræna lestina. „Það þarf ekki átta skothylki til þess að ræna lest,“ sagði hann í samtali við fjölmiðla í gær. Alek Skarlatos sem tók einnig þátt í að stöðva Khazzani sagði jafnframt að hann hafi augljóslega aldrei fengið skotvopnaþjálfun.