Tólf ára gamall drengur varð fyrir því óhappi að skemma málverk sem metið er á 1,5 milljón Bandaríkjadala, 193 milljónir króna, þegar hann hrasaði og datt á verkið á sýningu í Taívan.
Málverkið er eftir ítalska listamanninn Paolo Porpora og er frá sautjándu öld. Verkið er hluti af sýningu á 55 verkum í höfuðborg Taívan, Taipai.
Skipuleggjendur sýningarinnar hafa birt myndskeið frá því á sunnudag þar sem drengurinn sést hrasa og bera hendurnar fyrir sig með þeim afleiðingum að gat kemur á málverkið. Aumingja drengurinn veit greinilega ekki sitt rjúkandi ráð og sést síðan yfirgefa staðinn í fylgd varðar. Fjölskylda drengsins þarf ekki að greiða fyrir skemmdirnar á verkinu.
Meðal annarra verka á sýningunni er sjálfsmynd Leonardo Da Vince en sú mynd er metin á 231 milljón Bandaríkjadala.