Fjármálaráðherra Bretlands áhyggjufullur

George Osborne, fjármálaráðherra Bretlands.
George Osborne, fjármálaráðherra Bretlands. AFP

George Osborne, fjármálaráðherra Bretlands, lýsti í dag áhyggjum sínum af fjármálakrísunni í Kína og mögulegum áhrifum hennar á alþjóðlega fjármálakerfið. Hann sagði að breska þjóðin væri ekki ónæm fyrir ytri áföllum.

„Hlutabréfamarkaðir fara upp og niður. Spurningin sem maður verður að spyrja sjálfan sig er hvað það segir manni um heimshagkerfið,“ sagði Osborne við breska fjölmiðla í dag.

„Þessar dramatísku hreyfingar á undanförnum dögum segja okkur að það er enn mikil áhætta til staðar í heimsbúskapnum og eru sér í lagi miklar áhyggjur uppi um hvað sé að gerast í Kína,“ sagði ráðherrann.

„Hvað þýðir það fyrir Bretland? Nú, það þýðir að við erum ekki ónæm fyrir því sem gerist í heiminum. Við vitum það.“

Hlutabréfamarkaðurinn í Lundúnum hefur lækkað um næstum því tíu prósent á seinustu tíu dögum.

Þó hækkaði FTSE 100 hlutabréfavísitalan um 3,02% í dag og stendur hún nú í 6.077,70 stigum. Vísitalan hríðféll um 4,7% í gær, eins og flestar hlutabréfavísitölur í heiminum.

„Við getum gert meira til að auka efnahagslegan stöðugleika og öryggi. Það er það sem við höfum verið að gera á undanförnum árum með því að taka erfiðar ákvarðanir þannig að Bretland sé betur varið en það var fyrir fimm eða sex árum,“ sagði Osborne.

Xi Jinping, forseti Kína, fer í opinbera heimsókn til Bretlands í október næstkomandi en þar hyggst ríkisstjórn Osbornes og David Camerons, forsætisráðherra Bretlands, reyna að að styrkja efnahagsleg bönd Bretlands og Kína, að sögn fréttaveitunnar AFP.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert