Í haldi al-Qaeda í 18 mánuði

Bob Semple ásamt eiginkonu sinni.
Bob Semple ásamt eiginkonu sinni. AFP

Breskur maður sem haldið var í gíslingu í Jemen í átján mánuði segist vera „glaður og feginn“ að vera kominn aftur heim til fjölskyldu sinnar. Sky News greinir frá þessu.

Bob Semple var nýlega sleppt úr haldi hryðjuverkamanna í kjölfar hernaðaraðgerða hersveita frá Sameinuðu arabísku furstadæmunum í hafnarborginni Aden. Semple starfaði sem verkfræðingur fyrir olíufyrirtæki þegar honum var rænt af meðlimum al Qaeda í febrúar á síðasta ári.

Semple var að störfum í Hadhramauta, dreifbýlu svæði í miðju Jemen þegar að hann var handsamaður og neyddur inn í bíl af hópi manna.

Í samtali við fjölmiðla eftir að honum var sleppt sagðist Semple hlakka til að eyða verðmætum tíma með fjölskyldu sinni sem hann hafði saknað. Hann sagðist jafnframt vera „ótrúlega þakklátur“ þeim sem tryggðu lausn hans.

Fyrir ári birtist myndskeið á Youtube sem átti að sýna Semple biðja um að öryggi hans yrði tryggt. Myndbandið var birt af arabíska fjölmiðlinum AlziandiQ8 og þar mátti sjá Semple biðja um hjálp frá breskum yfirvöldum.

Í myndbandinu mátti sjá mann með bundið fyrir augu sem kynnir sig sem Bob Semple. „Vinsamlega, Bretland eða Jemen, hjálpið mér að komast aftur til fjölskyldu minnar. Ég hef verið í haldi í sjö mánuði og staðan er ekki góð. Þessir gaurar ætla að drepa mig bráðum held ég,“ sagði Semple m.a. í myndbandinu.

Nokkrum Bretum hefur verið rænt í Jemen síðustu misseri. Rán á útlendingum eru algeng í landinu og er gíslunum yfirleitt sleppt, oft í skiptum fyrir peninga. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert