Leiðsögumaður var drepinn af ljóni í þjóðgarði í Simbabve í dag en um sama garð er að ræða og þjóðþekkta ljónið Cecil bjó í áður en það var drepið í síðasta mánuði. Það mál vakti heimsathygli en Cecil var skotinn með boga af bandaríska tannlækninum Walter Palmer. Mikil reiði myndaðist í kjölfar drápsins og hafa tveir menn verið ákærðir vegna drápsins.
Samkvæmt upplýsingum frá stjórn þjóðgarða Simbabve var leiðsögumaðurinn Quinn Swales á göngu ásamt sex ferðamönnum í þjóðgarðinum þegar karlkyns ljón réðst á hann.
„Hann sá ný spor og ákvað að elta ljónahjörð með tveimur ljónynjum, tveimur ungum og tveimur ljónum. Eitt ljónanna heitir Nxaha og er það með GPS tæki á sér,“ sagði í tilkynningu. „Það er nú vitað að Nxaha réðst á Quinn. Ekki tókst að bjarga honum.“
Lögregla rannsakar nú málið en ekki er vitað hvort að Swales hafi verið vopnaður.
Mál þar sem fólk er drepið af villtum dýrum í þjóðgörðum Simbabve eru sjaldan tilkynnt opinberlega. Áður hafa ljón sem hafa drepið fólk einfaldlega verið skotin í kjölfarið. Talskona þjóðgarðanna, Caroline Washaya-Moyo sagði í dag að engin ákvörðun hafi verið tekin um hvort að Nxaha verði skotinn eða ekki.