Frönsk yfirvöld hafa aðeins nokkrar klukkustundir til stefnu til þess að ákveða hvort Ayoub El Khazzani sem var afvopnaður í hraðlest í Frakklandi á föstudag verði ákærður.
El Khazzani, sem er 25 ára og frá Marokkó, kom um borð í lestina í Brussel vopnaður Kalashnikov riffli, Luger skammbyssu, dúkahníf og skotfærum. Talið er að hann hafi ætlað að fremja hryðjuverk en hann segist aðeins hafa ætlað að ræna farþega um borð í lestinni.
Heimildir AFP fréttastofunnar herma að skömmu áður en hann fór um borð í lestina hafi hann horft á myndskeið með söng þeirra sem fara í heilagt stríð ( jihadist). Í fyrstu var talið að hann væri með tvo síma á sér en heimildir herma að hann hafi aðeins verið einn síma með sér og sá hafi verið gerður virkur sama dag.
Samkvæmt frönskum lögum þá er hægt að halda Khazzani og yfirheyra í fjóra sólarhringa en eftir það þarf annað hvort að ákæra hann eða láta hann lausan.
Saksóknari í París, Francois Molins, hefur boðað til blaðamannafundar klukkan 17 að staðartíma, klukkan 15 að íslenskum tíma.
Farþegar í lestinni segja að Khazzani hafi skotið og sært mann áður en þrír Bandaríkjamenn, þar af tveir hermenn í leyfi og félagi þeirra ásamt breskum kaupsýslumanni, yfirbuguðu Khazzani.
Allt frá því að hryðjuverk sem kostuðu 17 lífið voru framin í Frakklandi í janúar hefur mikill viðbúnaður verið þar í landi. Forseti Frakklands, Francois Hollande, sagði í dag að Frakkar yrðu að vera undir það búnir að fleiri hryðjuverk yrðu framin í landinu. Koma þurfi í veg fyrir slíkar árásir og Frakkar verði að verja sig fyrir slíkum ódæðisverkum.