Árásarmaðurinn framdi sjálfsmorð

Vester Lee Flanagan eða Bryce Williams.
Vester Lee Flanagan eða Bryce Williams. Skjáskot af Twitter

Maðurinn sem grunaður er um að hafa skotið tvo fréttamenn til bana í Virginíu í Bandaríkjunum í morgun heitir Vester Lee Flanagan. Hann er þekktur undir nafninu Bryce Williams sem hann notar í starfi sínu sem fréttamaður. Lögreglan í Augusta sýslu hefur nú greint frá þessu.

Bandaríska fréttastofan ABC fékk annað hvort í gærkvöldi eða í morgun fax frá einhverjum sem segist vera Williams. Samkvæmt frétt ABC var skjalið 23 síður og hefur því nú verið komið til yfirvalda.

Því hefur nú verið haldið fram að Williams hafi birt myndskeið af drápinu á bæði Twitter og Facebook. Aðgöngum hans á samfélagsmiðlunum hefur nú verið eytt en áður hafði Williams tjáð sig um árásina. Skrifaði hann til dæmis að myndband hans af árásinni væri komið inn á Facebook og sakaði Parker um að hafi látið falla rasísk ummæli. Því hefur þó einnig verið haldið fram á Twitter að Parker og Williams hafi eitt sinn átt í ástarsambandi. 

Uppfært 15:55

Samkvæmt fréttatilkynningu frá lögreglu framdi Williams sjálfsmorð klukkan 11:25 að staðartíma. WDBJ7 segir frá þessu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert