Ríkisstjóri Virginíu, Terry McAuliffe, hefur greint frá því að maðurinn sem grunaður er um að hafa skotið tvo starfsmenn sjónvarpsstöðvar til bana í morgun sé fyrrum starfsmaður stöðvarinnar. Reuters segir frá þessu.
Lögregla eltir nú manninn en fengist hafa upplýsingar um nafn hans og bílnúmer bifreiðar sem hann ók í burtu frá verslunarmiðstöðinni þar sem skotárásin fór fram.
Eins og áður hefur komið fram voru starfsmenn sjónvarpsstöðvarinnar, þau Andy Ward og Alison Parker, að flytja frétt úr verslunarmiðstöðinni þegar að skotið var að þeim. Talið er að Ward hafi verið skotinn fyrst en Parker þegar hún reyndi að flýja.
Samkvæmt frétt CNN er talið að byssumaðurinn hafi skotið sex eða sjö sinnum. Parker var að taka viðtal við konu um klukkan 6:45 í morgun að staðartíma þegar skothríðin hófst. Báðar konurnar öskruðu og tökumaðurinn féll. Á upptöku fréttarinnar, sem var í beinni útsendingu, má sjá byssumanninum bregða fyrir. Lítur út fyrir að hann beini byssu að tökumanninum sem lá þá í jörðinni.
Uppfært 15:15
Samkvæmt frétt The Miami Herald er hinn grunaði 41 árs gamall. Hann starfar sem frétta- og tökumaður á annarri sjónvarpsstöð í Virginíu. Að sögn lögreglu styttist nú í handtöku mannsins en lögregla hefur fundið bíl mannsins hefur hún hafið eftirför. Sjónvarpsstöðin þar sem fólkið starfaði hefur greint frá því að viðmælandi Parker hafi særst í árásinni og er nú á sjúkrahúsi. Starfsmönnum stöðvarinnar hefur nú verið ráðlagt að halda sig innandyra.
Hér fyrir neðan má sjá myndbandið en það er ekki fyrir viðkvæma.