„Ég er tifandi tímasprengja“

Maðurinn sem skaut fréttamann og tökumann til bana í Virginiu í gær lýsir sér sem tifandi tímasprengju í faxi sem hann sendi á ABC sjónvarpsstöðina. Hann segist hafa orðið fyrir einelti fyrir að vera svartur og samkynhneigður.

Vester Flanagan, sem hafði verið rekinn frá sjónvarpsstöðinni WDBJ7 framdi sjálfsvíg eftir að hafa reynt að flýja lögreglu. Fólkið sem hann skaut til bana starfaði hjá sömu sjónvarpsstöð.

Forsetaembætti Bandaríkjanna sendi í gær frá sér tilkynningu um að árásin sýni að herða þurfi reglur um byssueign í Bandaríkjunum.

Yfirmaður sjónvarpsstöðvarinnar minntist þeirra sem féllu fyrir hendi Flanagans, Alison Pareker og Adam Ward, í gær en hann segir að Flanagan hafi verið óhamingjusamur og að það hafi þurft að vísa honum  út úr byggingunni sem hýsir sjónvarpsstöðina þegar honum var sagt upp árið 2013.

Parker var að taka viðtal við Vicki Gardner, hjá Viðskiptaráði Smith Mountain Lake svæðisins, þegar Flanagan hóf skothríðina í gær. Gardner er á sjúkrahúsi en hún fékk skot í sig. Líðan hennar er stöðug, samkvæmt frétt BBC.

Samkvæmt frétt BBC fékk ABC News sent 23 blaðsíðna langt fax frá Flanagan sem er ritað undir nafni sem hann notaði í vinnu, Bryce Williams. Þar kemur fram að reiðin innra með honum hafi stigmagnast og að hann væri tifandi tímasprengja sem biði eftir því að springa.

Hann segist hafa þurft að þola rasisma og hommafóbíu í vinnunni og lýsti yfir aðdáun á unglingnum sem myrti 13 manns í Columbine High menntaskólanum í Colorado árið 1999.

Það sem hafi síðan gert útslagið hafi verið morð á níu kirkjugestum í Charleston í Suður-Karólínu í júní. Þá hafi hann fengið nóg en allir kirkjugestirnir voru svartir.

Frétt BBC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert