„Hann neitaði og neitaði og neitaði í fyrstu, og svo gaf hann eftir og játaði hvað hann hafði gert,“ segir kona sem komst að því að unnustu hennar var notandi framhjáhaldssíðunnar Ashley Madison.
BBC hefur rætt við tvær konur í kjölfar þess að gögnum um notendur Ashley Madison var lekið á netið; önnur þeirra komst að því að hennar heittelskaði hafði haldið framhjá henni en hin hafði sjálf látið freistast og skráð sig á síðuna til að freista þess að svara spurningum sem hún hafði um kynhneigð sína.
Hvorug vildi koma fram undir réttu nafni, en sú sem kallar sig „Maria“ segir að hún hafi ekki átt von á því að finna neitt þegar hún sló netfang unnustans í þartilgerða leitarvél á netinu. Leitarvélin staðfesti ekki eingöngu að netfang unnustans væri að finna í Ashley Madison-gögnunum, heldur skilaði hún póstnúmeri, borg og afmælisdegi.
Allar upplýsingarnar pössuðu.
„Já, hann hafði haldið mörgum sinnum framhjá, já. Hann bara sagði það,“ segir hún. Unnustinn sagðist ekki getað skýrt það að fullu af hverju hann hefði gert það sem hann gerði og að honum þætti vænna um Mariu en konurnar sem hann hitti gegnum Ashley Madison.
En Maria pakkaði í tösku og flutti tímabundið til vinar. Brúðkaupinu var aflýst. Hún hefur pantað tíma hjá kynsjúkdómalækni og segir reynsluna hafa verið eyðileggjandi.
„Það er eitt ef þú stígur fram og segir: Ég er ekki ánægður, eða ég er ekki hamingjusamur eða ég á erfitt með að vera trúr. Svo lengi sem þú kemur hreint og beint fram,“ segir Maria. „Það er hins vegar algjörlega ósanngjarnt að sóa árum í lífi einhvers með tvöfeldni.“
„Amy“ hefur verið gift manninum sínum í 10 ár. Nýlega kviknaði hins vegar áhugi hennar á að eiga ástarsamband við annan mann og í kjölfarið skráði hún sig á Ashley Madison.
Hún sendi engin skilaboð og lokaði aðganginum fljótlega en fyrir sex mánuðum stofnaði hún annan og í þetta skiptið til að leita að konu.
Hún átti í nokkurra vikna tölvupóstsamskiptum við konu sem deildi reynslu hennar; hún var gift en hafði alltaf verið forvitin um þá hlið sína sem var spennt fyrir sambandi við aðra konu. Þær ætluðu að hittast en Amy hætti við. Hún komst að þeirri niðurstöðu að hún vildi ekki stofna hjónabandi sínu í hættu.
„Það er ógnvekjandi að hugsa til þess að særa einhvern sem þú virkilega elskar,“ segir Amy, sem óttast að eiginmaðurinn muni komast að því að hún hafi notað framhjáhaldssíðu Ashley Madison. Hún er ein þeirra sem greiddi fyrir að upplýsingum sínum yrði eytt, en þær er engu að síður að finna í gögnunum sem var lekið á netið.