Taílenska lögreglan hefur handtekið annan útlending í tengslum við mannskætt sprengjutilræði í miðborg Bangkok fyrir tveimur vikum.
Maðurinn var handtekinn í Sa Kaeo héraði, austur af Bangkok, við landamæri Kambódíu. „Hann er sá sem er helst grunaður,“ segir Prayuth Chan-ocha forsætisráðherra Taílands.
Í síðustu viku var útlendingur handtekinn í Bankok grunaður um aðild að sprengjutilræðinu við Erawan helgidóminn. 20 létust í árásinni.
Búnaður til sprengjugerðar og tíu vegabréf fundust í íbúð í Nong Kok, úthverfi Bangkok í gær.