Færeyingar ganga að kjörborðinu í dag og er eitt helsta hitamálið í kosningabaráttunni hvort heimila eigi hjónabönd samkynhneigðra. Eins hefur stjórnmálamönnum verið tíðrætt um skatta á sjávarútvegsfyrirtæki í kosningabaráttunni.
Danmörk var eitt þeirra ríkja sem heimilaði samkynhneigðum að ganga í hjónaband en eitthvað hefur það setið í Færeyingum.
Sveinur Trondarson, ritstjóri Dimmalaettning segir í viðtali við AFP fréttastofuna að stjórnmálaflokkunum hafi reynst þrautin þyngri að ná samstöðu um að heimila slík hjónabönd.
Nýleg skoðanakönnun bendir til þess að 64% Færeyinga styðja að samkynhneigðum verði heimilt samkvæmt lögum að ganga í hjónaband. Um sex þúsund manns tóku þátt í Gay Pride hátíðarhöldunum í Þórshöfn fyrr í sumar. En Miðflokkurinn, sem er annar stjórnarflokkanna í Færeyjum hefur hins vegar ekki viljað að þingið greiði atkvæði um frumvarp til laga þar að lútandi.
Kaj Leo Holm Johannesen, lögmaður Færeyja, boðaði til þingkosninga þriðjudaginn 1. september eftir að hann var staðinn að því að hafa veitt færeyska lögþinginu rangar upplýsingar.
Hans Gammeltoft Hansen, fyrrverandi umboðsmaður lögþingsins, komist að þeirri niðurstöðu í skýrslu fyrir þingið í sumar að Johannesen hefði veitt því rangar upplýsingar um undirbúning neðansjávarganga sem bora átti milli Þórshafnar og Austureyjar. Göngin áttu að vera einkaframkvæmd og danskt fyrirtæki ætlaði að taka þátt í henni.
Johannesen hafði sagt ítrekað á þinginu að ekki hefði verið samið við fyrirtækið um að það fengi greiðslur frá ríkinu færi svo að þingið samþykkti ekki gerð ganganna. Síðar kom í ljós að landstjórnin hafði samið við fyrirtækið um að ríkið greiddi því milljón danskra króna (20 milljónir íslenskra) ef göngin yrðu ekki samþykkt.
Gammeltoft Hansen komst einnig að þeirri niðurstöðu að Kári P. Højgaard, sem fór með samgöngumál í landstjórninni þar til í september 2013, hefði gerst brotlegur við lög með því að leyna endurskoðaðri kostnaðaráætlun við göngin. Højgaard hafði sagt þinginu að kostnaður ríkisins af göngunum yrði 800.000 danskar krónur (15,8 milljarðar íslenskra) en látið hjá líða að skýra þinginu frá því að síðar var gerð ný kostnaðaráætlun þar sem gert var ráð fyrir því að göngin kostuðu ríkið 1,9 til 3 milljarða danskra króna (37 til 60 milljarða íslenskra).
Gammeltoft Hansen kvaðst ekki telja ástæðu til að draga þá Johannesen og Højgaard fyrir landsdóm (d. rigsret) en lagði til að þingið veitti þeim ámæli. Í setningarræðu sinni á þinginu sagði Johannesen að hann hefði ekki reynt að villa um fyrir þinginu af ásettu ráði.
Johannesen er formaður Sambandsflokksins sem myndaði stjórn með Fólkaflokknum, Miðflokknum og Sjálfstýriflokknum eftir síðustu kosningar árið 2011. Sjálfstýriflokkurinn sagði sig úr stjórninni í september 2013. Kannanir benda til þess að Jafnaðarflokkurinn auki fylgi sitt í kosningunum í dag.
Kaj Leo Holm Johannesen er fimmtugur og varð fyrst formaður landstjórnarinnar í september 2008. Hann vann mikinn sigur í þingkosningum í október 2011 þegar hann fékk 1.979 atkvæði, fleiri en nokkur annar frambjóðandi í sögu þingkosninga í Færeyjum frá því að eyjarnar fengu heimastjórn árið 1948. Þetta var jafnframt í fyrsta skipti sem sitjandi landstjórnarformanni og flokki hans tókst að auka fylgi sitt í kosningum, að því er fram kemur í grein Boga Þórs Arasonar, um færeysk stjórnmál í Morgunblaðinu í sumar.