Fjölskylda litla sýrlenska drengsins sem skolaði á land í Tyrklandi var að reyna að komast til ættingja í Kanada þegar hún drukknaði. Stríðið í Sýrlandi var hafið áður en Aylan Kurdi fæddist fyrir þremur árum. Hann drukknaði ásamt fimm ára gömlum bróður sínum, Galip, og móður, Rehan, á flóttanum. Faðir þeirra, Abdullah, er sá eini sem lifði flóttann af.
Myndir af líki Aylan hafa vakið mikla athygli og eru birtar á forsíðum fjölmiðla út um allan heim. Þær hafa ýtt enn frekar á yfirvöld í Evrópu um að grípa til aðgerða strax svo hægt sé að bjarga lífi flóttafólksins sem er að flýja stríð og ofbeldi í Miðausturlöndum og Afríku.
Synjað um hæli en reyndu samt
Aylan skolaði á land á einni vinsælustu strönd meðal ferðamanna í Tyrklandi og sýnir svo ekki verður um villst þær hættur sem bíða fólks sem leggur af stað yfir Miðjarðarhafið. Yfir 2600 hafa drukknað á þeirri leið það sem af er ári.
Aylan Kurdi, klæddur í rauðan stuttermabol og bláar stuttbuxur, er einn tólf Sýrlendinga sem drukknuðu þegar bát þeirra hvolfdi er þeir reyndu að komast til Grikklands.
Kanadískt dagblað greinir frá því að fjölskyldan hafi ætlað reyna að komast til Kanada þrátt fyrir að hælisumsókn þeirra hafi verið hafnað. Kurdi fjölskyldan er frá bænum Kobane en flúði til Tyrklands í fyrra undan liðsmönnum Ríkis íslams.
Ein mynd þaggar niður í heiminum
Myndinni hefur verið dreift á samfélagsmiðlum undir myllumerkinu "#KiyiyaVuranInsanlik" og hefur engri mynd verið dreift jafn víða á Twitter undanfarinn sólarhring.
Svo virðist sem annað hljóð sé komið í skrokkinn hjá ritstjórn Daily Mail sem talar nú um lítið fórnarlamb mannlegra hamfara en ekki er langt síðan blaðið talaði um sæg af fólki (swarm of people- orðið swarm er oft notað um sveimur af fuglum eða flugum) sem reynir að komast til Bretlands. Ítalska dagblaðið segir á Twitter: „Ein mynd þaggar niður í heiminum.“ Jafnvel Sun hvetur forsætisráðherra Bretlands, David Cameron, til þess að taka á móti fleiri flóttamönnum.
Ættingjar Abullah Kurdi segja í viðtali við fjölmiðla í Kanada að hann hafi hringt í þau og látið vita að kona hans og synir væru dáin og það eina sem hann vilji sé að snúa aftur til heimabæjar þeirra Kobani og grafa fjölskyldu sína.
Guardian birtir í dag mynd af þeim bræðrum, Aylan og Galyp, hlægjandi saman í sófa þar sem Galip heldur utan um litla bróður sinn.
<blockquote class="twitter-tweet">Family of Syrian boy washed up on beach were trying to reach Canada <a href="http://t.co/5fjWXUDbpX">http://t.co/5fjWXUDbpX</a>
— Guardian news (@guardiannews) <a href="https://twitter.com/guardiannews/status/639356548741918720">September 3, 2015</a></blockquote><script async="" charset="utf-8" src="//platform.twitter.com/widgets.js"></script><div id="embedded-remove"> </div>En flóttamennirnir halda áfram að streyma til Evrópu og eru skiptar skoðanir meðal leiðtoga ríkja ESB um hvað eigi að gera. Forsætisráðherra Ungverjalands, Viktor Orban, átti fund með leiðtogum ESB um stöðuna en í síðasta mánuði komu 50 þúsund flóttamenn til Ungverjalands.
Ekki vandamál Evrópu heldur Þýskalands
Orban segir flóttamannavandann ekki vera vandamál Evrópu heldur vandamál Þjóðverja En hann reynir að verja það hversu hart stjórn hans hefur tekið á flóttamönnum sem þangað koma.
„Enginn vill vera áfram í Ungverjalandi, né í Slóvakíu, Póllandi eða Eistlandi. Allir vilja fara til Þýskalands. Það er okkar hlutverk að skrá þá,“ sagði Orban á blaðamannafundi í Brussel í dag.
Á sama tíma þustu hundruð flóttamanna inn á lestarstöðina í Búdapest í þeirri von að komast þaðan til annarra landa. Í fyrstu var sagt að engin lest myndi fara frá Keleti stöðinni til útlanda um óákveðin tíma en svo virðist sem lestir gangi að landamærunum því Reuters fréttastofan greinir frá því að troðfull lest með flóttamönnum hafi verið að yfirgefa stöðina. Áfangastaðurinn er bærinn Sopron sem er skammt frá landamærum Austurríkis.
Tusk hvetur ríki ESB til að taka á móti 100 þúsund flóttamönnum
Donald Tusk, forseti leiðtogaráðs Evrópusambandsins, hvatti aðildarlönd ESB til þess að taka á móti 100 þúsund flóttamönnum alls svo hægt verði að létta á spennunni sem er í þeim löndum sem fá flesta flóttamenn til sín.
„Það er mikilvægt merki um raunverulega samstöðu að taka á móti fleira flóttafólki. Með sanngjarni skiptingu að minnsta kosti 100 þúsund flóttamönnum á milli ríkja EB er staðreynd sem við þurfum í dag,“ sagði Tusk á blaðamannafundi með Orban í dag.
Tæplega 16 þúsund Íslendingar hafa skráð sig
Ríkisstjórn Bretlands hefur samþykkt að taka á móti 216 Sýrlendingum en tugir þúsunda hafa skrifað undir bænaskjal til forsætisráðherra um að taka við fleiri flóttamönnum. Hér á Íslandi hafa tæplega 16 þúsund skráð sig á síðu á Facebook þar sem stjórnvöld eru hvött til þess að taka við fleiri flóttamönnum.
Yfir 350 þúsund flóttamenn hafa komið til Evrópu það sem af er ári. Margir þeirra koma frá Líbíu þar sem smyglarar hafa grætt á tá og fingri á örvæntingu fólksins. Í gær var um þrjú þúsund bjargað skammt frá strönd Líbíu.
Ástandið á Miðjarðarhafi versnar dag frá degi á meðan þeim fjölgar sífellt sem reyna að komast sjóleiðina frá Tyrklandi til Grikklands, meðal annars Kurdi fjölskyldan.
Vitum ekki hvað lögreglumaðurinn hugsar en sjáum að hann lítur undan
Peter Bouckaert, framkvæmdastjóri neyðaraðstoðar hjá Human Rights Watch, segir að Aylan Kurdi sé nýjasta fórnarlamb lítilfjörlegra viðbragða ríkja Evrópu gagnvart flóttamönnum.
Frétt Washington Post á afdrifum drengsins á ströndinni hefst með þessum orðum: Fyrsta myndin sýnir lítinn dreng. Hann er í rauðum stuttermabol og stuttbuxum sem ná rétt niður fyrir hné. Blússan hefur togast upp fyrir mitti hans og bolur hans sést. Hann er í svörtum íþróttaskóm en engum sokkum. Og hann er dáinn, andlit hans snýr niður á grófri ströndinni.
Á næstu mynd sést drengurinn borinn í burtu af lögreglumanni. Lögreglumaðurinn er með gúmmíhanska. Litlir fótleggir drengsins lafa við hlið lögreglumannsins. Við sjáum hvernig merki á skóm hans hefur máðst. Og þrátt fyrir að við getum ekki lesið hugsnair lögreglumannsins á meðan hann ber lík barnsins úr sjónum þá sjáum við að hann lítur undan.
<blockquote class="twitter-tweet">Shocking images of a refugee toddler drowned and washed ashore. There's outrage - but what next? <a href="http://t.co/yL5EmwiCk1">http://t.co/yL5EmwiCk1</a> <a href="https://twitter.com/hashtag/KiyiyaVuranInsanlik?src=hash">#KiyiyaVuranInsanlik</a>
— BBC Newsnight (@BBCNewsnight) <a href="https://twitter.com/BBCNewsnight/status/639182573864939521">September 2, 2015</a></blockquote><script async="" charset="utf-8" src="//platform.twitter.com/widgets.js"></script><div id="embedded-remove"> </div>