Norska öryggislögreglan, PST, hefur staðfest að Norðmaður var meðal hryðjuverkamannanna sem gerðu árás á verslunarmiðstöðina Westgate í Naíróbí í Kenía fyrir tveimur árum.
Þetta staðfestir Martin Bernsen, upplýsingafulltrúi PST í samtali við Aftenposten. Norðmaðurinn heitir Hassan Dhuhulow og hefur allt frá því árásin var gerð verið talinn einn árásarmannanna. Það hefur nú verið staðfest með tannlæknaskýrslum en hann lést þegar lögreglan náði yfirráðum yfir verslunarmiðstöðinni eftir fjögurra daga umsátur.
Norski hryðjuverkamaðurinn, Hassan Abdi Dhuhulow 23 ára, sat klukkustundum saman og las sér til um öfgafulla íslamista. Sautján ára gamall var hann farinn að skrifa um sigur öfgahreyfinga í heiminum, segir í grein Aftenposten fyrir ári síðan þar sem fjallað er um unga hryðjuverkamanninn sem lést í árásinni á verslunarmiðstöðina en alls voru fórnarlömb árásarinnar rúmlega sextíu talsins.
Dhuhulow var einn þeirra sem skrifaði inn á umræðuvettvanginn islam.no þar sem nokkrir öfgamenn hafa viðrað skoðanir sínar. Samkvæmt Aftenposten voru birtar yfir 2.500 færslur frá honum inn á öfgavefinn á tímabilinu október 2006 til maí 2008.
Einn þeirra öfgamanna sem hafði sem mest áhrif á Dhuhulow, sem fór frá því að vera fyrirmyndarnemandi í Noregi í fjöldamorðingja í Naíróbí í Kenía, er Anwar al-Awlaqi. Hann var fyrsti bandaríski ríkisborgarinn, sem settur var á lista Bandaríkjamanna um vígamenn, sem á að taka af lífi. Hann var myrtur 30. september 2011 í loftárás á Jemen. Al-Awlaki hefur haft mikil áhrif á fjölmarga unga menn sem hafa aðhyllst öfgaíslam og má þar nefna bræðurna sem stóðu á bak við sprengjutilræðin við Boston-maraþonið og hryðjuverkamenn sem tóku þátt í árásinni á Bandaríkin 11. september 2001.
Þegar Hassan Abdi Dhuhulow er nítján ára nægir honum ekki lengur að skrifa öfgafullar orðsendingar á netið heldur fer frá Noregi. Fjórum árum síðar lést hann í verslunarmiðstöðinni. Á þeirri stundu var hann orðinn annar í röðinni yfir þá norsku hryðjuverkamenn sem hafa flest líf á samviskunni.