„Morðingi!“ og „farðu úr bænum!“ var hrópað að tannlækninum Walter Palmer, sem drap ljónið Cecil í Simbabve, er hann snéri aftur til starfa í í heimabæ sínum í Minnesota í gær. Töluverður fjöldi fólks hafði safnast saman fyrir utan tannlæknastofuna í bænum Bloomberg og gerðu hróp að lækninum. Í hópnum voru einnig nokkrir sjúklingar Walters sem lýstu stuðningi við hann.
Palmer ræddi ekki við blaðamenn í gær. Hann lokaði tannlæknastofu sinni tímabundið í júlí er fréttir af ljónsdrápinu fóru sem eldur í sinu um allan heim. Ljónið Cecil, sem var frægasta ljón Simbabve og til rannsóknar hjá Oxford-háskóla, var skotið með boga svo það særðist. Dýrið fór svo um langan veg áður en veiðimennirnir fundu það aftur og skutu til bana. Palmer hefur reyndar sagt þessa lýsingu dýraverndunarsamtaka í Simbabve ranga. Hann segist reyndar vissulega hafa skotið dýrið með boga og sært það en það hafi ekki tekið 40 klukkustundir að finna það aftur og drepa.
Palmer var fljótlega nafngreindur sem veiðimaðurinn sem bæri ábyrgð á dauða Cecils. Hann sagðist síðar ekki hafa vitað að Cecil væri frægur. Tannlæknirinn fékk fjölda hótanna, m.a. á samfélagsmiðlum. Málið vakti upp miklar umræður um veiðar villtra dýra í Afríku og tóku m.a. flugfélög sig til og ákváðu að flytja ekki hræ slíkra dýra til Bandaríkjanna.