Salman, konungur Sádi-Arabíu, heitir að komast að því hvers vegna stærðarinnar byggingarkrani hrundi á Moskuna miklu í Mekka með þeim afleiðingum að 107 biðu bana og 230 slösuðust.
„Við munu rannsaka alla þætti málsins og síðan munum við greina almenningi frá niðurstöðunni,“ sagði konungurinn eftir að hafa skoðað aðstæður á vettvangi í dag.
Ríkisfréttastofa Sádi-Arabíu segir að Salman hafi rætt orsök þess að kraninn féll og þá eyðileggingu sem varð á moskunni helgu. Kraninn féll í gær og er einn af mörgum sem eru á svæðinu. Embættismenn hafa sagt að hann hafi gefið sig í miklu hvassviðri.
Undanfarin ár hefur verið unnið að því að stækka moskuna.
Von er á mörg hundruð þúsund pílagrímum til Mekka sem ætla að taka þátt í pílagrímshátíð múslíma, hajj.
Salman hefur vottað fjölskyldum hinna látnu samúð og þá heimsótti hann slasaða á sjúkrahúsi.