Rannsókn hafin í Mekka

Yfirvöld í Sádi-Arabíu hafa hafið rannsókn á því hvers vegna stærðarinnar byggingarkrani féll á Moskuna miklu í Mekka í gær með þeim afleiðingum að 107 hið minnsta létust. Þá slösuðust að minnsta kosti 230.

Mikill glundroði skapaðist í kjölfarið og ekki liggur fyrir hver stór hluti þeirra slasaðist þegar kraninn féll eða í glundroðanum.

Fjölmenni var í moskunni þegar kraninn gaf sig. Embættismenn hafa sagt að kraninn hafi hrunið í vonskuveðri, að því er segir á vef BBC.

Fréttaskýrendur hafa hins vegar bent á að menn hafi áður gert athugasemdir við öryggismál á byggingarsvæðum í Sádi-Arabíu, þ.e. að þau séu óviðunandi. 

Moskan mikla er stærsta moska í heimi og er hún byggð í kringum heilagasta stað múslíma, Kaaba.

Tæpar tvær vikur eru þar til pílagrímshátíð múslíma, hajjj, hefst í borginni. Von er á mörg hundruð þúsund pílagrímum. 

Á meðal þeirra sem létust eru Indverjar, Íranar, Egyptar og Indónesar. 

Slysið var klukkan 17:23 að staðartíma (klukkan 14:23 að íslenskum tíma) í gær. 

Myndir og myndskeið, sem hafa verið birt á netinu, sýna augnablikið þegar kraninn féll. Hár hvellur heyrist í kjölfarið og margir hrópa og kalla í örvæntingu. Víða má sjá blóðug lík á gólfi moskunnar.

Talsmaður varnarmálaráðuneytis Sádi-Arabíu segir að rannsókn sé hafin. Skemmdir verði jafnframt metnar og öryggismál byggingarsvæða verði skoðuð sérstaklega. 

107 látnir í Mekka

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert